138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[23:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar kemur að landbúnaðarfræðum getum við rætt um þau hér en ég held að það sé mjög mikilvægt, og það lærði ég líka í æsku, að gera sér grein fyrir fortíðinni og þekkja hana vel því að oft eru þær ákvarðanir sem maður er að taka í nútíðinni byggðar á ákvörðunum sem teknar voru í fortíðinni. Það er það sem ég benti á sem voru skattalækkanir ríkisstjórnar á þenslutímum sem voru ákaflega hæpnar. En hvað varðar þær hugmyndir sem lagðar hafa verið fram og snúast um skattlagningu inn til lífeyrissjóðanna þá hef ég persónulega ekki lagst gegn þeim og tel rétt að skoða þær en ég hef jafnframt bent á, og það veit hv. þingmaður, að við erum í viðræðum við lífeyrissjóðina um að fjármagna ákveðin verkefni og við hljótum að þurfa að spyrja okkur að því hvaða áhrif það hefði á fjármögnun þeirra verkefna. En þetta er eitthvað sem ég hygg að sé alls ekki búið að afskrifa og verði áfram til skoðunar í nefndum og mér heyrðist hv. þm. Helgi Hjörvar koma inn á þetta áðan í andsvari sínu. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði áður og kannski beina spurningu minni til baka til hv. þingmanns, þó að það sé ekki vani: Taldi hann rétt að lækka skatta á þenslutímum?