138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[23:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður hefði hlustað á alla ræðu mína er það alls ekki svo að sá sem hér stendur sé að afsala sér einhverri ábyrgð á því að takast á við þá vinnu sem fylgir því að takast á við þann niðurskurð sem boðaður er, þvert á móti. Og það er alls kostar rangt að ræðan hafi eingöngu fjallað um safnliði.

Sáu vinstri grænir bankahrunið fyrir? Ég held að engum dyljist að sá flokkur sem gagnrýndi það sem var í gangi og ofvöxtinn á þessu kerfi var Vinstri hreyfingin – grænt framboð sem ítrekað gagnrýndi þetta, en þá voru það einmitt þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem stýrðu landinu og börðu hausnum við steininn þegar allt var komið í þrot. (GÞÞ: Sáu þeir það fyrir?) Vinstri hreyfingin – grænt framboð er sá flokkur sem varaði við þessu trekk í trekk og þessu getur hv. þingmaður flett upp, bæði í þingræðum, í greinum, ályktunum og fleiru sem flokkurinn hefur sent frá sér.

Hvað varðar það að minnka kostnað án þess að skerða þjónustu. Það sem verið er að gera og sú vinna sem unnin hefur verið í fagnefndunum, í ráðuneytunum, í fjárlaganefnd hefur einmitt snúist um að reyna af fremsta megni að draga úr þjónustuskerðingu á sama tíma og nauðsynlegt er að skera niður. Þetta veit hv. þingmaður og hefur fylgst með hluta af þessari vinnu. (GÞÞ: Svar.) Hvað varðar flutning frá heilbrigðisráðuneytinu yfir til félagsmálaráðuneytisins þá er það bara í ákveðnum farvegi og verið er að skoða það og komið hefur verið vel inn á það í ræðum fyrr í kvöld, til að mynda hjá formanni heilbrigðisnefndar. (Gripið fram í.) Ég vil sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu.