138. löggjafarþing — 43. fundur,  15. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[00:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hæstv. ráðherra að ávarpa forseta með viðeigandi hætti.)

Herra forseti. Ég ætla í stuttu andsvari að nefna hér þrjú atriði sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson spurði mig um, í fyrsta lagi Landspítala – háskólasjúkrahús þar sem vissulega er við mikinn vanda að etja. Það er ekki aðeins að gerð sé 2 milljarða kr. aðlögunarkrafa á sjúkrahúsið á næsta ári, heldur bætist þar við halli frá þessu ári upp á 1,2 milljarða kr. Þetta er mikið vandaverk og það er unnið hörðum höndum að því á spítalanum núna á hverjum degi að gera rekstraráætlun sem uppfyllir þessar kröfur fyrir næsta ár. Ég tel, sem betur fer, að það muni nást og ekki með uppsögnum 600–700 manna eins og tilkynnt var hér 1. október, eða 450–500 manna eins og Hulda Gunnlaugsdóttir nefndi, heldur sem betur fer með allt öðrum hætti.

Í öðru lagi ætla ég í seinna svari mínu að koma að kragaverkefninu, en mig langar til þess að byrja hér á þessum flutningi hjúkrunarheimila yfir til félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Ég ítreka það sem hv. þingmaður sagði, heilbrigðisráðuneytið ber áfram ábyrgð á gæðum heilbrigðisþjónustu alls staðar, líka á hjúkrunarheimilum, bæði samkvæmt lögum um málefni aldraðra, lögum um heilbrigðisþjónustu og reglugerð um Stjórnarráðið. Og það er sameiginlegur skilningur ráðuneytanna tveggja að það þurfi að auka möguleika til fjölbreyttari og meiri þjónustu fyrir aldraða, m.a. með heimahjúkrun og skammtímavistun, og að við ráðstöfun fjármagns megi ekki einblína á hjúkrunarheimili heldur færa fjárveitingar milli þjónustuúrræða í samræmi við þörf og óskir hinna öldruðu. Og það er nauðsynlegt að útfæra samkomulag sem gert var á milli ráðuneytanna (Forseti hringir.) í haust til þess að tryggt sé að þessi stefnumörkun (Forseti hringir.) megi ná fram að ganga.