138. löggjafarþing — 43. fundur,  15. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[00:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði hæstv. ráðherra ekkert út í hvernig gengi að ná fram árangrinum, eða réttara sagt rekstraráætlun næsta árs á Landspítalanum þannig að ég veit ekki af hverju hæstv. ráðherra var að svara því. Ég spurði hæstv. ráðherra hvers vegna hún hefði skipt um skoðun frá því að hún nefndi bæði í fjölmiðlum og í þinginu að hún teldi bagalegt að niðurstöður skýrslunnar sem er kennd við Huldu Gunnlaugsdóttur væri ekki komin í fjárlögin. Ég spurði annars vegar að því og svo spurði ég um faglegu rökin fyrir því að færa heilbrigðisþjónustu frá heilbrigðisráðuneytinu. Og það komu engin fagleg rök fram í þessu svari, engin.

Ég sit í heilbrigðisnefnd, við höfum spurt eftir faglegum rökum og það hafa ekki komið nein svör. Auðvitað vita allir að það þarf að vera yfirsýn yfir þennan málaflokk og allir vita að það er æskilegt að hafa fleiri þjónustuúrræði en einungis hjúkrunarheimili. Það er það sem ég vann að sem ráðherra með mjög góðum árangri. Við fluttum sömuleiðis heimahjúkrunina yfir til Reykjavíkur og sameinuðum heimahjúkrun og heimaþjónustu sem er nokkuð sem hefur verið talað um í áratugi en við náðum sem betur fer að gera það.

Virðulegi forseti. Ég á enn eftir að fá svör við þessum spurningum og ég vonast til að fá þau í næsta andvari. Af hverju skipti hæstv. ráðherra svona skyndilega um skoðun varðandi niðurstöður úr skýrslu frá Huldu Gunnlaugsdóttur, sérstaklega með þessi rök fyrir framan sig eftir þennan hóp sem hún var með sjálf? Það er önnur spurningin. Síðan (Forseti hringir.) eru faglegu rökin fyrir flutningnum.