138. löggjafarþing — 43. fundur,  15. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[01:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér fjárlög fyrir árið 2010. Margir hafa sagt að árið 2010 verði erfiðasta ár eftir kreppuna og strax árið 2011 verði farið að létta á og við farin að sjá til lands. Það er þó mjög háð því hvernig menn vinna úr þeim áhrifum sem orðið hafa og hvernig menn taka á og þar kemur fjárlagafrumvarpið mjög sterkt inn.

Ef maður lítur á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins, sem ég horfi kannski mikið á, og á fjárlagafrumvarpið í heild sinni eru á því ansi sterk vinstri merki. Það er kannski ekki undarlegt, þjóðin kaus vinstri menn. Hún kaus Vinstri græna sérstaklega, þeir voru sigurvegarar kosninganna. Þeir urðu reyndar sigurvegarar á grundvelli þess að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu, vinna ekki með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og samþykkja ekki Icesave. Þó er það allt komið til en þjóðin kaus sem sagt vinstri menn og hér er vinstri stjórn og allar þær hugmyndir sem við fjöllum um eru mjög í takt við það, og ég sætti mig alveg við það, ég sætti mig alveg við niðurstöðu kosninga.

Í tekjuhlutanum horfum við á þrepaskiptan tekjuskatt. Þetta er draumur margra vinstri manna og ASÍ tekur undir það. Marga vinstri menn dreymir um að vera með margþrepa skatt og telja að þannig náist mest réttlæti. Vel má vera að þannig náist réttlæti og slíkt kerfi tíðkast mjög víða um lönd. Kerfið verður hins vegar mjög flókið og allt það sem við ræðum hér, frú forseti, er gífurleg flæking á kerfinu.

Nú hef ég sagt það mörgum sinnum áður að flókið kerfi er um leið andfélagslegt, það er ekki gott fyrir þjóðina. Menntað fólk, og þeir sem eru mest upplýstir og fylgjast best með, geta notað sér allar þær smugur sem eru í flóknu skattkerfi en þeir sem minna mega sín í þjóðfélaginu eru ekki í þeim hópi. Þeir eru ekki með dýra lögfræðinga til að finna allar smugur í flóknu kerfi og þess vegna vill það oft verða svo að þegar kerfin eru gerð mjög flókin til að mæta hinum félagslega veiku eru það ekki þeir sem njóta þess. Þeir vita ekki af réttindum sínum og ef kerfið verður mjög flókið eru þeir alltaf í einhverjum útistöðum við kerfið af því að þeir skilja það ekki, fylgjast ekki með, hafa ekki rétta ráðgjöf o.s.frv. Einföld kerfi eru því í reynd, frú forseti, réttlátust, sanngjörnust fyrir þá sem þurfa að borga fyrir utan það að þau kosta þjóðfélagið miklu minna. Ekki er heill her af fólki við að vinna óarðbæra vinnu sem felst í skriffinnsku og ekki eru eins miklir möguleikar á undanskotum og svindli. Svindl er niðurbrot á siðferði og flókin skattkerfi bjóða því miður alltaf heim svindli.

Þrepaskattur í tekjum, tekin eru upp fjögur þrep, það er 0% skattur og fyrsta þrep, annað þrep og þriðja þrep. Bent hefur verið á það í umræðum að þetta er mjög andfélagslegt. Fjölskylda þar sem annar aðilinn er kannski fjarri heimili, er t.d. sjómaður eða vinnur uppi á hálendinu, og hinn aðilinn, oft og tíðum konan, þarf að vera yfir börnum og sjá um allan rekstur heimilisins sem lendir þá alfarið á henni því að hinn aðilinn getur vegna fjarlægðar ekki sinnt því — konan getur verið með núll, engar tekjur, og hann með mjög háar tekjur og þá borga þau töluvert meira en hjón með sambærilegar tekjur þar sem bæði eru með jafnar tekjur og vinna bæði nálægt heimili sínu.

Búið er að setja inn nýtt þrep í virðisaukaskatti og það er líka í samræmi við vinstri stefnuna að menn vilja hlífa þeim sem kaupa mat í þeirri trú að fólk sem er með háar tekjur borði jafnmikinn mat og þeir sem eru með lágar tekjur. Það er reyndar ekki rétt, rannsóknir hafa sýnt að þeir sem eru með háar tekjur eyða hlutfallslega meiru í mat en þeir sem eru með lágar tekjur, enda vita þeir sem hafa lent í kröggum og lent í að vera auralausir að það fyrsta sem fólk sparar er útgjöld í mat, það fer þá yfir í að kaupa baunir eða eitthvað slíkt.

Búið er að setja inn auðlinda- og kolefnisgjald og það er í samræmi við stefnu umhverfisverndarsinna og náttúruverndarsinna. Auðlindagjald, það að láta menn borga fyrir auðlindina, á að takmarka notkun á henni, og kolefnisgjaldið er í anda þeirrar trúar eða kenningar að koldíoxíðmengun valdi hitnun jarðar. Að því leyti er þetta skynsamlegt og rökrétt og ég hef ekki athugasemdir við það. Ég hef hins vegar mjög miklar athugasemdir við hvernig þetta er gert því að hvort tveggja er framkvæmt mjög vitlaust.

Frú forseti. Í hitaveitum alveg sérstaklega er auðlindagjald prósenta af því gjaldi sem borgað er af heita vatninu. Þær hitaveitur sem eru langarðbærastar eru ódýrastar þannig að þar sem auðlindin er mest virði þar borga menn minnst. Ég nefni Hitaveitu Sauðárkróks. Þar gusast upp mjög heitt vatn með litlum tilkostnaði og hitaveitan er mjög ódýr og þar af leiðandi borga menn lítið auðlindagjald. Þetta finnst mér alls ekki rétt og ég hef bent á þetta í hv. efnahags- og skattanefnd en menn voru ekki á þeim buxunum að fara að gera neinar breytingar þannig séð. Ég kem inn á það á eftir með allan hraðann.

Ég get líka skilið þetta auðlegðargjald, frú forseti. Ég get alveg skilið að menn vilji ná í þá sem eiga milljarða. Ekki er verið að tala um þá sem eiga venjulegar eignir, reyndar fara mörkin dálítið niður, 100 milljónir þykir kannski ekkert voðalega mikið — jæja, það var skuldlaust einbýlishús nú er það kannski einbýlishús og sumarbústaður skuldlaust af því að verð hefur lækkað. En það er eiginlega útilokað að ná í það eða reikna það, það var líka bent á það í nefndinni.

Menn hækkuðu svo tryggingagjald og það skil ég alls ekki því að það er ekki endilega í takt við vinstri stefnu. En það var gert að kröfu, eða það sögðu menn, Samtaka atvinnulífsins — mjög skrýtið og ég kem inn á það á eftir.

Svo er ráðist á áhættufé. Margir vinstri menn hafa ímugust á áhættufé og tala alltaf illa um hlutafé og arð og kúlubréf og vexti, að það sé allt af hinu illa. Það sama fólk vill samt taka lán og fá vinnu hjá fyrirtækjum sem eru mynduð með áhættufé. Það er því mótsögn í þessu hjá vinstri mönnum. Þeir vilja biðla til áhættufjárins en tala illa um það alla daga og vilja ekkert hafa með það gera, hvað þá að vinstri menn fjárfesti í atvinnulífinu, það held ég að sé ekki mjög algengt. Þó getur það vel verið, ég þekki það ekki. Þetta fjallar um fjármagnstekjur, arð, húsaleigu og söluhagnað og annað.

Það er merkilegt þegar maður skoðar þessar tillögur allar saman að þær eru í rauninni atlaga að atvinnu. Það er kannski það sem þjóðin þarf mest á að halda núna, það er atvinna. Það er atvinnuleysi og það er nokkuð sem ég hef lýst yfir að ég vilji ekki sjá. Ég vil ekki sjá, frú forseti, atvinnuleysi, hvað þá langtímaatvinnuleysi sem fer vaxandi. Það er eitthvað sem við, allir hv. þingmenn, eigum að berjast gegn af alefli. Engu að síður er niðurstaða þessara hugmynda allra atlaga að atvinnu.

Af hverju segi ég það? Það er t.d. tryggingagjaldið. Fyrir það að hafa mann í vinnu borgar fyrirtækið ákveðið gjald. Í dag er það 7%. Meðallaun eru u.þ.b. 400 þús. kr. þannig að hvert einasta fyrirtæki í landinu borgar 28 þús. kr. fyrir að hafa mann í vinnu á mánuði, það er gjaldið fyrir það að ráða mann í vinnu. Nú á það að hækka upp í 34.400 kr. fyrir 400 þús. kr. laun. Það þýðir að mörg fyrirtæki sem eru mjög knöpp, standa mjög illa og berjast við það frá einum mánuði til annars að ná endum saman og geta borgað út laun, sjá allt í einu fram á 6.400 kr. á hvern einasta starfsmann sem aukagjald á mánuði. Vel má vera að það verði til þess að þau fari á hausinn og að við búum til atvinnuleysi. Þeir sem ætla að fara að fjölga starfsmönnum hljóta líka að reikna út að þeir borgi 34 þús. kr. fyrir hvern einasta starfsmann sem er með 400 þús. kr. laun og kannski hætta þeir við að ráða nýtt fólk.

Til þess að búa til atvinnu, til þess að stofna fyrirtæki, þarf áhættufé. Það eru flestir sammála því, jafnvel vinstri menn. Sumir vilja reyndar að ríkið geri allt, sé í útgerð og hverju sem er, en það eru ekki margir í dag. Það á að koma eitthvert áhættufé einhvers staðar frá. Fyrir hrun voru óskaplega margir Íslendingar þátttakendur í áhættufjárfestingum eða í atvinnulífinu með því að eiga hlutafé. Þessi hópur manna varð langsamlega verst úti í kreppunni, ég fullyrði það. Svo tala menn um að fjármagnseigendur séu með allt sitt á þurru. Ég er svo aldeilis hissa. Ég er að láta reikna það út en ég hugsa að 60–70 þúsund manns hafi tapað að meðaltali svona 4 til 5 milljónum á mann, bara almenningur. Þessi hópur manna er illa brenndur því að hann tapaði öllu sem hann átti, og það er verið að reikna það út núna. Bara bankarnir þrír — frá einni viku til annarrar töpuðu 42 þúsund manns, ég er að tala eftir minni, að meðaltali 3 milljónum hver, bara á bönkunum þremur á einni viku. Þetta er almenningur og þar á meðal voru 11 þúsund aldraðir yfir 60 ára minnir mig eða 64 ára, 11 þúsund aldraðir sem töpuðu að meðaltali 3 milljónum.

Nú eru aldraðir eitthvað um 30 þúsund og ef maður reiknar með því að töluvert sé um pör og hjón og annar aðilinn sé skráður fyrir hlutabréfunum má með grófri nálgun segja að helmingur aldraðra hafi átt í bönkunum þremur og hafi tapað að meðaltali 3 milljónum hver. Svo er alltaf verið að ráðast á áhættufjárfesta og segja að þeir hafi allt sitt á þurru og allt frumvarpið gengur út á það. Það á að hækka fjármagnstekjuskatt, það á að hækka skatt á arð, það á að hækka skatta af eigum, það á að hækka skatt af söluhagnaði, allt í takti við hugmyndir vinstri manna og ég bara horfi á það þannig. En um leið eru þeir að drepa viljann til þess að leggja peninga í atvinnulífið, til að skapa vinnu. Ég er því dálítið svartsýnn til framtíðar með það að menn vilji yfirleitt fjárfesta í atvinnulífinu, það er miklu skynsamlegra að kaupa spariskírteini eða vera bara ekkert að leggja fyrir. Það getur vel verið að það verði niðurstaðan hjá mörgum þó að reyndar sé mjög mikill vilji til sparnaðar eftir hrun. Það er aðallega vegna þess að menn hafa þörf fyrir öryggi.

Ég hugsa að þessi atlaga að atvinnu sé ekki með vilja gerð, frú forseti. Ég er nærri viss um að þetta er ekki með vilja gert. Þetta eru mistök, þetta er hugsunarskekkja og kannski spurningin um aðra lífssýn. Ég veit ekki hvað vinstri menn halda; hvort fólk sé að fjárfesta í atvinnulífinu af hugsjón eða að gamni sínu eða til að þóknast einhverjum. Þegar menn leggja fyrir er það alltaf í formi þess að menn spara eitthvað, neita sér um neyslu. Það er alltaf þannig, menn geta ekki sparað nema neita sér um neyslu. Menn neita sér um ferðalög, menn neita sér um bílakaup, kaup á flatskjá eða dýr húsakaup og þannig geta menn sparað. Það gerist ekki öðruvísi.

Ef ég kemst yfir það ætla ég að lesa einhverjar umsagnir því að nánast engin þeirra var jákvæð, frú forseti. Það helgast kannski mest af því hve hraðinn var mikill og hve illa þetta er unnið. Mikið var rætt um að þessar skattalagabreytingar sem við ræðum um, og munum ræða betur um í vikunni þegar þær koma úr efnahags- og skattanefnd, væru atlaga að atvinnulífinu. Menn tala um að nú þurfi að skattleggja og talað er um að það þurfi að skattleggja annars vegar og skera niður hins vegar, sem sagt að minnka velferðarkerfið og auka skattlagningu.

Á það var bent að slíkt gæti verið mjög hættulegt og skaðlegt. Heimilin og fyrirtækin eru mjög löskuð eftir atburði haustsins 2008 þegar hrunið varð og mega ekki við því að borga mikla nýja skatta. Vel má vera að einstaka maður geti þetta alveg og ég efast ekkert um það en bent er á það í mörgum umsögnum að fjöldi heimila muni ekki geta þetta. Hvað gera menn þá, frú forseti, ef þeir sjá fram á að þeir geti ekki borgað skattana? Þá fara menn að huga enn frekar að því að fara til útlanda, því miður, það er þannig. Það er eitt af því versta sem gæti gerst og er þegar farið að gerast þó að menn vilji ekki horfast í augu við það. Fólk streymir til útlanda, sérstaklega þeir sem eru menntaðir og eiga kost á vinnu þar, og með hverjum og einum fer burt skattgreiðandi. Það er yfirleitt ekki þannig að þeir sem eru á bótum fari til útlanda, alla vega ekki á erlend bótakerfi. Þeir halda þá áfram að taka bætur hér á landi þannig að við höldum áfram að hafa kostnaðinn í ríkissjóði en við missum tekjurnar. Þetta er mjög hættulegt og ég ætla að biðja menn að skoða það nákvæmlega.

Í sumar myndaðist hér mikil samstaða og ég var að vonast til þess að menn mundu áfram fara í þannig samstöðuham og reyna að finna lausn á þeim mikla vanda sem menn standa frammi fyrir. Reyndar gerðist ákvörðun um þessar skattlagningar mjög hratt. Ríkisstjórnin hefur frá því í maí haft tíma til að vinna þessar hugmyndir, og jafnvel frá því í byrjun febrúar, hugmyndir sem eru vinstri sinnaðar og allt í lagi með það. Maður hefði talið að þetta mundi liggja fyrir þegar þing kæmi saman en það var ekki. Það er bara sleifarlag, ekki er hægt að flokka það undir annað. Þó að menn hafi verið að gera ýmislegt annað, eins og Icesave, Evrópusambandið eða Seðlabankinn, að reka seðlabankastjórana o.s.frv., geta þeir ekki afsakað sig með því. Sú vinna lenti að mestu leyti á stjórnarandstæðingum á meðan stjórnarliðar hefðu getað dundað sér við að búa til almennileg skattalög í sínum anda. Það var ekki gert og þess vegna sitjum við uppi með mjög illa unnin og hroðvirknislega unnin skattalög og óskaplegan hraða.

Nú á að fara að samþykkja eitthvað sem tekur gildi eftir tvær vikur, stórbreytingar á kerfinu, virðisaukaskattsbreytingar, tekjuskattsbreytingar. Það á að fara að borga út laun, bara strax 1. janúar. Þann 2. janúar borgar ríkið t.d. út laun og þá á að vera komið nýtt skattkerfi sem bæði greiðendur launa og þiggjendur eiga að skilja. Ég geri þá kröfu, herra forseti, öndvert við marga aðra, að borgarinn skilji það sem mætir honum í skattlagningu.

Hvers vegna tala ég um samstöðu? Vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram hugmyndir um skattlagningu séreignarsparnaðar. Nú er Sjálfstæðisflokkurinn ekkert sérstakur vinur skattlagningar en hins vegar óar hann við því að fara að skattleggja löskuð heimili og fyrirtæki í þessari stöðu og þess vegna fóru menn að leita að öðrum leiðum, líta eftir því hvar ríkið ætti eignir. Það eru eignir ríkisins í ósköttuðu fé lífeyrissjóðanna.

Ég var fyrst mjög andsnúinn því að skattleggja fé sameignarsjóðanna vegna þess að þar er um að ræða fé sem menn eiga í sameiningu. Ekki er um það að ræða að menn eigi séreign heldur er um tilfærslu að ræða milli kynslóða og einstaklinga. Sumir verða háaldraðir og taka miklu meira út úr kerfinu en þeir borguðu inn, aðrir lifa styttra, og sumir eru með maka og ómegð þegar þeir falla frá o.s.frv. þannig að það er alls ekki þannig að hver maður taki út það sem hann lagði inn en að meðaltali gerir hann það. Það er þessi tilflutningur á milli sem gerir það erfitt um vik að skattleggja það, fyrir utan það að þessi lífeyrir frá lífeyrissjóðunum er oft og tíðum grunntekjurnar hjá viðkomandi einstaklingi og lendir þá oft og tíðum undir skattleysismörkum þegar um er að ræða kerfi með skattleysismörkum yfirleitt.

Við lögðum sem sagt til skattlagningu séreignarsparnaðar og sú hugmynd er þannig útfærð að hún kemur eiginlega ekki við neinn. Um næstu áramót yrði eignin skattlögð um 37,2% og hluti af því, 13,1%, rynni til sveitarfélaganna og restin til ríkisins. Þetta er gert með þeim hætti að lífeyrissjóðirnir, þeir sem það vildu, mættu borga með skuldabréfi, í stöðluðum einingum, hugsanlega milljón króna einingum eitthvað slíkt, sem semdist um milli þeirra og skattyfirvalda. Gjalddagi á þessum skuldabréfum, sem gætu verið kúlubréf en kúlubréf eru mjög sniðugt form þó að það megi kannski ekki segja það núorðið. Það yrði kúlubréf sem væri með svipuðum gjalddaga og séreignarsparnaðurinn sjálfur. Þá yrðu séreignarlífeyrissjóðirnir ekkert varir við þessa breytingu.

Það eina sem gerist er að þeir mundu gefa út skuldabréf og ríkið og sveitarfélögin sem fengju útsvarið yrðu í rauninni séreignarsparandi við hliðina á manninum sem er séreignarsparandi. Lífeyrissjóðirnir þyrftu því ekki að selja eitt einasta snitti af eignum sínum, ekki eitt einasta, og ekki yrði um neina brunaútsölu eða neitt slíkt að ræða. Ef til þess kemur að maðurinn fái séreign sína greidda út, sem allir vita að á eftir að skatta, það á sjóðfélaginn að vita eða sá sem á inneignina, þá gerist ekkert annað en það að hann fær alla upphæðina sem eftir er greidda. Hægt er að færa til bókar að hann sé búinn að greiða skatta af þessari upphæð og það standi alla tíð á yfirlitum hvaða upphæð hann er búinn að greiða og hann sé búinn að borga skatt. Óttinn við að þetta sé tvískattað er á mjög veikum grunni. Auðvitað geta menn skattað alla möguleika tvisvar en þarna er mjög erfitt um vik því hægt er að færa það í yfirlitið.

Maður sem lendir undir frítekjumörkum þegar hann tekur út sparnaðinn, það er sérákvæði um það til bráðabirgða að hann fái persónuafsláttinn greiddan, þeir sem lenda í þeirri stöðu, t.d. þeir sem taka lífeyri fyrr og eru kannski eitt eða tvö ár á séreignarsparnaðinum áður en þeir fara á almenna lífeyrinn. Þannig er þetta í stuttu máli, herra forseti, og í rauninni kemur þetta ekki við neinn, hvorki sjóðinn sjálfan né manninn sem sparar. Þetta breytir engu fyrir báða þessa aðila.

En þessi bréf sem lífeyrissjóðirnir gæfu út væru væntanlega með bestu pappírum sem til eru. Ég gæti vel ímyndað mér að pappír sem Lífeyrissjóður verslunarmanna er skuldari að væri afskaplega góður pappír því að hann skuldar ekki mikið og eiginlega ekki neitt, hann á eignir. Þessir pappírar gætu þá orðið markaðsvara sem sveitarfélögin og ríkið gætu selt. Þetta á að gefa ríkissjóði, miðað við þær áætlanir að næsta ár verði 309 milljarðar í þessum sjóðum, tæpa 75 milljarða og sveitarfélögunum 40 milljarða og veitir ekki af á þeim bæjum því að illa er komið fyrir þeim mörgum. Ég sé því ekki annað en þetta sé afskaplega góður kostur á móti öllu hinu, að fara að skattleggja allt það sem menn eru að gera.

Þarna mundi lágtekjufólk fá verðbætur á persónuafsláttinn og auk þess hækkun um 2.000 kr. um næstu áramót og 3.000 kr. um þarnæstu áramót, þannig að engu er breytt í kerfinu. Allir mundu borga lægri tekjuskatt en með þeim tillögum sem ríkisstjórnin leggur til og sérstaklega lágtekjufólk. Það er einmitt þetta sem ASÍ benti á í umsögn sinni, þeir voru mjög mikið á móti því að afnema verðtryggingu á persónuafslættinum sem nýbúið er að taka upp.

Ekki er öll nótt úti um það að menn ræði þetta. Ég veit ekki hvað hægt er að gera á þessum örfáu dögum. Það er kannski ekki nógu gæfulegt, menn hafa unnið dálítið hægt, það hefði mátt vinna þetta hraðar. Ekki er einu sinni búið að ræða þessa hugmynd sjálfstæðismanna um tryggingagjaldið. Frumvarpið liggur fyrir órætt en menn geta að sjálfsögðu kynnt sér það og það var samþykkt í hv. efnahags- og skattanefnd að taka það til umræðu þó að ekki væri búið að ræða það á þingi en það er heimilt samkvæmt þingsköpum.

Ég vonast til þess að meiri hlutinn sýni þann þroska að ræða þessa hugmynd, kosti hennar og galla, og fresta þá þessum skattlagningarhugmyndum sínum, jafnvel um eitt ár, vinna þær miklu betur og vera þá kominn með kerfi sem virkilega gengur upp og hægt er að samþykkja jafnvel á miðju ári þannig að allt atvinnulífið og þóðfélagið geti búið sig undir að taka það upp 1. janúar 2011. En þá, herra forseti, verður þjóðin, heimilin og fyrirtækin, miklu betur í stakk búin, eða það vonum við alla vega, til að taka á sig auknar álögur því að þá á að vera farið að birta til í atvinnulífinu og við komin yfir þann harða vetur sem allir reikna með að verði árið 2010. Ég vona því að menn gefi sér tóm og brjóti odd af oflæti sínu og ræði þessa hugmynd jafnvel þó að hún komi frá Sjálfstæðisflokknum.

Ég ætla að ræða rétt aðeins um fjárlögin sem spá. Áðan var rætt um gerð fjárlaga og hve illa er staðið að þeim. Fjárlög eru alltaf spá og fjáraukalög eiga einungis að taka á þeim málum sem ekki voru fyrir séð þegar fjárlög voru sett. Þetta er þverbrotið aftur og aftur og á það hef ég bent í mörgum ræðum um fjárlög undanfarinna ára. Menn vinna þetta ekki nægilega vel og það á ekkert frekar við um þessa ríkisstjórn en aðrar, alls ekki. Ég er alls ekki að segja að þetta sé eitthvað sérstaklega slæmt — jú, reyndar er þetta sérstaklega slæmt núna. Það er eitt sem er alveg sérstaklega slæmt og það er asinn, hraðinn og óðagotið á öllu því sem menn eru að gera. Það er stórhætta á því að einhver mistök verði gerð, það er stórhætta að einhverjir liðir sem hefði mátt skera niður, eins og ég benti á, aukning á rekstrarkostnaði Íbúðalánasjóðs, sem á að hækka um 100 millj. kr. jafnvel þó að verkefnum sé að fækka og launin að lækka. Þarna þyrfti að koma alveg sérstakur rökstuðningur. Þetta er lítið dæmi um það þar sem mönnum hugsanlega yfirsést eitthvað sem ætti eðlilega að skera niður og kannski eru menn að skera of mikið niður annars staðar. Þetta þyrfti að vinna miklu betur og miklu vandaðra en gert hefur verið.

Ég ætla ekki að fara í hvernig við stjórnarandstæðingar höfum verið meðhöndlaðir. Ég hugsa 5–6 ár aftur í tímann, þegar núverandi hæstv. fjármálaráðherra var hv. þingmaður Steingrímur J. Sigfússon og núverandi hæstv. forsætisráðherra var hv. þingmaður Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þingmaður Ögmundur Jónasson var upp á sitt besta, hvað þau hefðu sagt ef þau hefðu verið meðhöndluð með sama hætti og stjórnarandstaðan núna? En ég er ósköp lítið móðgunargjarn, herra forseti, og tek þetta ekki óstinnt upp. Hins vegar verða menn að skilja að ég hef aldrei hlýtt flokksaga og ætla ekki að fara að byrja á þeim ósköpum og hv. þm. Ögmundur Jónasson er líka farinn að skilja að það er ekki gott að hlýða flokksaga. Hann hefur sagt það í ræðustól. Flokksaginn getur orðið mjög skaðlegur lýðræðinu, herra forseti, mjög skaðlegur. Allt í einu fara menn að gera eitthvað sem þeir mundu ekki gera ella og öll sannfæring og skynsemi og allt virðist vera farið.

Í fjárlagafrumvarpið vantar mjög stóra liði, eins og t.d. Hörpu, nýja tónlistarhúsið. Ég var afskaplega óánægður með nafnið, ég hefði viljað nota nafnið 2007. Það hefði verið fallegt nafn, herra forseti, 2007. Æðibunugangurinn og flottræfilshátturinn sem þá var við lýði ætti að festast í þessu nafni því að húsið er ekkert annað en minnisvarði um flottræfilshátt. Núverandi ríkisstjórn getur ekki svarið það af sér að hafa samþykkt þetta því að hæstv. núverandi menntamálaráðherra skrifaði undir það. Það var vinstri stjórnin sem ákvað að fara út í þetta tónlistarhús og svo gerist það merkilega að hvergi er getið um það í fjárlögum. Það er eins og þetta hús detti af himnum ofan og enginn borgi. Ég hef margoft gagnrýnt það í gegnum tíðina, herra forseti, að menn eru að fela fyrir skattgreiðendum framtíðarinnar skuldbindingar sem ekki er hægt að bakka út úr.

Nú eru mörg sveitarfélög og ríkið líka að lenda í vandræðum einmitt út af þessu, að menn eru búnir að taka á sig skuldbindingar til framtíðar, og það var falið. Ég nefni Egilshöll og ég nefni fjöldann allan af byggingum þar sem sveitarfélög hafa verið að selja eignir sínar og leigja þær síðan af þeim sem kaupa og geta ekki losnað út úr því. Þá er það skuldbinding og á að færast sem slíkt.

Svo vantar náttúrlega Icesave inn í þetta frumvarp og ég held að við getum ekki rætt um fjárlagafrumvarpið án þess að geta um Icesave. Icesave er þvílík óskaparupphæð í þessu dæmi. Landsstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi sagði að þetta væri þriðja stærsta dæmið, Icesave, á eftir halla ríkissjóðs o.s.frv. Ég mótmæli því. Ég held því fram að þetta sé miklu meira vegna þess að menn eru að núvirða með mjög háum vöxtum og ná þannig niður kostnaðinum og svo reikna þeir líka með því að meira greiðist af eignum Landsbankans en raunverulega mun gerast. Icesave er t.d. búið að hækka. Hafi þetta verið um 660 milljarðar um síðustu áramót þegar þetta byrjaði að tikka á vöxtum, það byrjaði að tikka á vöxtum 1. janúar 2009 og er búið að tikka á vöxtum og gengishækkunum síðan þá. Mér sýnist að gengishækkanirnar séu, eftir því hvernig menn reikna gengið, um 15% hækkun sem þýðir um 107 milljarðar. Icesave-skuldbindingin hefur hækkað um 107 milljarða á þessu ári og ekki er búið að borga krónu niður, ekki krónu. Síðan hefur hún hækkað vegna vaxta um 45 milljarða, 5,55% af þeirri upphæð, þannig að þetta hefur hækkað um 150 milljarða á þessu ári, það eru þrjú sjúkrahús sem menn ætla að byggja. Um þrjú sjúkrahús hefur Icesave hækkað frá því í ársbyrjun til dagsins í dag og við getum ekki horft fram hjá þessu.

Það sem vegur þyngst þarna eru vextirnir séð til langframa og þeir munu halda áfram að tikka með miklum þunga á þjóðinni nema við verðum svo heppin, herra forseti, að það verði verðbólga í pundum. Við þurfum að vonast til að það verði verðbólga í pundum. Ekki er búið að ganga frá Icesave og ég ætla að vona að menn fallist á það að í efnahags- og skattanefnd verði gengið að tilboði sem við fengum í það að gera áhættugreiningu á Icesave sem átti að taka tvær vikur en ég held að hægt sé að pressa það niður í kannski 10 daga. Það gengur út á það að meta hversu miklar líkur eru á því að við getum borgað Icesave með tiltölulega léttum hætti þegar þar að kemur. Það eru ákveðnar líkur á því og ég er að vona að það séu jafnvel 50% líkur á því að þegar upp er staðið árið 2016, þegar við byrjum að borga þetta, muni menn segja: Já, þetta var nú auðvelt mál. Hvað voru menn að gera svo mikið veður út af þessu árið 2009. Þá mun ég segja það sama og við manninn sem búið hefur í húsinu sínu alla tíð án þess að kviknað hafi í því: Já, það kviknaði aldrei í hjá þér vinurinn, þú ert bara heppinn. Það hefði getað kviknað í. Ég vil láta reikna út hve miklar líkur eru á því að við lendum í vandræðum með að borga þessar greiðslur, í fyrsta lagi töluverðum vandræðum og svo skelfilegum vandræðum.

Þegar ég tala um skelfileg vandræði er þegar við getum ekki borgað vextina. Það er í mínum huga skelfilegt vegna þess að þá eru við komin í þá stöðu, herra forseti, að við erum vanskila þjóð, ríkissjóður Íslands getur ekki staðið við skuldbindingu sem Alþingi er búið að veita og skuldbindingin er á lán, ég vil alltaf undirstrika það, skuldbindingin er á lán ekki á einhverja stöðu. Og það er allt annað að skulda lán og það munu Hollendingar og Bretar segja: Já, en elskurnar mínar, þið skuldið lán, þið eigið bara að borga það. Ef við getum ekki borgað þá lendum við í því að þeir munu segja: Við viljum fá að veiða hérna eða við viljum fá að virkja. Við viljum fá Landsvirkjun í pant, þið getið selt okkur Landsvirkjun o.s.frv. Við verðum ósjálfstæð eins og þeir einstaklingar sem orðið hafa gjaldþrota á Íslandi hafa kynnst. Þeir aðilar ættu eiginlega að koma fyrir nefndina og segja hvernig upplifun það er að verða gjaldþrota, hvað maður er í rauninni algerlega háður þeim sem maður skuldar, missir húsið sitt o.s.frv.

Mér finnst, herra forseti, að þessi staða megi ekki koma upp. Það má ekki koma upp sú staða, með engu móti, að við getum ekki borgað vextina sem Icesave-samningurinn gerir ráð fyrir að við eigum að gera. Við verðum að semja upp á nýtt þannig að við séum tryggð. Ég held að bresk og hollensk stjórnvöld, ef þau skilja málið, ef þeim er kynnt málið með réttum hætti, muni örugglega fallast á að taka yfir þessa tryggingu á Icesave sem um er að ræða. En við getum ekki rætt fjárlagafrumvarpið án þess að geta um Icesave.

Ég ætlaði að lesa nokkrar umsagnir og kannski vinnst tími til þess. Ég er búinn að fara í gegnum frumvarpið sem Sjálfstæðisflokkurinn flutti. En ég ætla að lesa umsögn frá Bændasamtökum Íslands. Ég þekki einn bónda á þingi og hann er einmitt í salnum núna, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, hann mun þá væntanlega hlusta með athygli. Bændasamtök Íslands segja, með leyfi forseta:

„Breytingar á olíugjaldi og vörugjöldum koma þungt niður á íbúum landsbyggðarinnar. Minnt er á að við breytingu á álagningu þungaskatts yfir í olíugjald var ítrekað lofað úrlausn fyrir bændur til samræmis við það sem áður var og svikið með lækkun á framlögum til Lífeyrissjóðs bænda.“

Þetta var umsögn Bændasamtakanna og þau vara við þessu, sérstaklega út frá sjónarhorni landsbyggðarinnar.

Flestar umsagnirnar voru í þessum anda, herra forseti. Þær voru neikvæðar. Hér er t.d. umsögn frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda. Þeir segja, með leyfi forseta:

„Frá og með janúar 2010 þarf venjulegt íslenskt heimili að afla yfir 100 þús. kr. í launatekjur til þess eins að eiga fyrir auknum sköttum á bensínlítrann samanborið við sömu útgjöld fyrir ári síðan.“

Þeir segja sem sagt að þetta komi niður á öllum heimilum og líka lágtekjuheimilunum og kannski mest á þeim. Ég hugsa nefnilega að þær skattabreytingar sem verið er að gera komi verst niður á þeim sem lægstar hafa tekjurnar þegar á heildina er litið. Þarna eru menn óvart að skjóta á rangt mark og ættu kannski að gá betur að sér.

Ég ætla að leita að umsögn ASÍ en þeir vöruðu eindregið við því að afnema verðtryggingu á persónuafslætti vegna þess að það var áfangi sem þeir börðust fyrir og náðu í gegn en á nú að afnema og það finnst mér líka mjög miður. Ég hefði talið að menn ættu að standa vörð um það ákvæði. Allt er þetta óþarfi ef menn fallast á að ræða hugmyndir sjálfstæðismanna um að skattleggja séreignarsparnaðinn, þá frestast þetta um eitt ár og menn geta gefið sér tíma til að gera þetta almennilega þannig að það meiði ekki þá sem lægstar hafa tekjurnar eins og þessar hugmyndir allar gera.

Hagsmunasamtök heimilanna vara við þessu og segja að þetta komi bæði til skerðingar á kaupmætti og leiði til hækkunar á lánum heimilanna sem er ólíðandi fyrir heimilin og til verulegs tjóns fyrir hagkerfið í heild. Þeir vara eindregið við þessu. Þeir segja, með leyfi forseta:

„Það er skoðun hagsmunasamtaka heimilanna að það sem hagkerfið þarf er aukin innanlandseftirspurn.“

Það er einmitt það sem hugmynd sjálfstæðismanna gerir. Hún býr til innanlandseftirspurn vegna þess að þau skuldabréf sem séreignarsjóðirnir gefa út munu sveitarfélögin og ríkið reyna að selja. Þetta verða góð bréf og þau munu gefa sveitarfélögunum og ríkissjóði peninga til ráðstöfunar til að fara í alls konar framkvæmdir, sérstaklega sveitarfélögunum, halda uppi atvinnu hver á sínu svæði og það að skattleggja ekki almenning gefur honum aukið svigrúm til útgjalda.