138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Ég geri ráð fyrir að frétt sem var í ríkissjónvarpinu nýlega um ótta fólks með nauðungarsölur hangandi yfir höfði sér hafi orðið tilefni þessarar fyrirspurnar en sú frétt vakti athygli mína.

Hv. þingmaður nefndi þau lög sem við stóðum saman að og eru til þess fallin að auðvelda heimilum og fyrirtækjum að fara í frjálsa skuldaaðlögun utan dómstóla. Ég tel mjög ólíklegt að þessi lög dugi ekki en svo virðist sem ekki sé verið að fylgja eftir þeim römmum sem þar voru settir. Ég veit að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra óskar um þessar mundir eftir tilnefningum í starfshóp sem á að fylgja því eftir að unnið sé samkvæmt markmiði þessara laga. Það er mjög brýnt að sá starfshópur taki sem fyrst til starfa og fari ofan í saumana á hvað veldur því að bankarnir taki ekki á málum þessa fólks.

Sannarlega má vera að ekki sé hægt að bjarga öllum úr þessum hópi en það hlýtur að vera að hægt sé að hjálpa meginþorra þessa fólks. Það liggur beint við að byrja þarf á að lengja í frestun nauðungarsölu. Ég held að það sé einsýnt því þetta tekur augljóslega lengri tíma en áætlað var. Þá þarf nefnd skipuð alþingismönnum að fylgja því fast eftir að bankarnir nýti þau úrræði sem þeir hafa, bæði samkvæmt eigin reglum og löggjöf frá Alþingi. Í þessu sambandi held ég að sérstaklega athyglisvert sé að hlusta á orð Marks Flanagans hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem segir að bankarnir nýti augljóslega ekki það svigrúm (Forseti hringir.) sem þeir hafa til skuldaaðlögunar.