138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þær fjölmörgu fjölskyldur sem eru á frestunarlista yfir nauðungarsölur hljóta að horfa með kvíðboga til jólanna en ekki tilhlökkunar og það er mjög alvarlegt mál. Það er mjög alvarlegt að fjölskyldur séu í þeirri stöðu að þær sjái ekki út úr fjárhagsvanda sínum. Þess vegna tek ég innilega undir með hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að það er mjög mikilvægt að þessi vinnuhópur fari af stað og verði skipaður sem fyrst. Fyrsta verkefni þessa hóps er að mínu mati að kalla til sín bankana, fá ítarlegar upplýsingar um hvernig þeir hafa beitt úrræðum laganna, hvort einhverjar hindranir séu fyrir því að þeir geti beitt þeim og spyrja þá mjög ítarlegra spurninga um hvernig þeir meðhöndli skuldamál heimilanna. Nú ætla ég ekki að gefa mér að ekki sé unnið af heilindum í bönkunum. Ég gef mér að svo sé en það er augljóslega eitthvað sem hindrar þá í að vinna jafn hratt og örugglega og við vonuðum að þeir mundu gera.

Ég þakka fyrirspurnina og ítreka að þingflokkarnir þurfa allir að tilnefna í þennan hóp svo hann geti hafið störf fyrir jól.