138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir þetta svar. Hér afhjúpaði hann fullkomið þekkingarleysi á málefninu. Það var algerlega skýrt, virðulegi forseti, að aldrei stóð til í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem ég sat í sem heilbrigðisráðherra að færa heilbrigðisþjónustuna til félagsmálaráðuneytisins. Hér segir hv. þingmaður að þetta snúist bara um að færa peninga á milli en ekki fjárhagslega ábyrgð. Mig langar að lesa upp úr ályktun Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, en þeir þekkja til málsins. Hér segir, með leyfi forseta:

„Þeir flytjast á hjúkrunarheimili til að fá hjúkrun og aðra heilbrigðisþjónustu en ekki sem félagslegt búsetuúrræði.“ — Hér er vísað til aldraðra. — „Vistunarmat liggur til grundvallar flutningi á hjúkrunarheimili enda hafa önnur úrræði svo sem sérhæfð dagvist, hvíldarinnlögn og heimahjúkrun verið reynd til fulls. Stjórnvöld boða að fagleg stjórnun og eftirlit með hjúkrunarheimilum verði áfram hjá heilbrigðisráðuneytinu. Stjórn Fíh leggur áherslu á að fagleg og fjárhagsleg yfirstjórn fari saman og falli undir eitt og sama ráðuneytið. Slík skipan eykur líkur á faglegri og réttlátri þjónustu.“

Hvað eftir annað hefur komið fram að yfirsýn yfir þennan þátt heilbrigðismála, og þetta snýr ekki bara að öldruðum svo því sé til haga haldið því það er svo sannarlega líka yngra fólk á þessum heilbrigðisstofnunum, mun fara þegar menn færa fjárhagslega yfirstjórn yfir í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Ég held að svar hv. þingmanns sé staðfesting á því að hér verða menn að staldra við og skoða þetta mál betur. Ef þekking formanns fjárlaganefndar er ekki meiri en svo að hann telur að hér sé ekki um að ræða að fjárhagsleg yfirstjórn færist á milli ráðuneyta þá segir það allt sem segja þarf.