138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það gengur stundum fram af manni hvernig þingmenn eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson tala til annarra þingmanna. Ég ætla ekki að frýja hv. þingmanni vits eða þekkingar og ég biðst undan því að hann geri það við mig einfaldlega vegna þess að þú veist sjálfur, hv. þingmaður, Guðlaugur Þór Þórðarson — (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Ekki samtal.)

Við sátum heilu dagana til að fara yfir sjúkratryggingarnar með hæstv. heilbrigðisráðherra á þeim tíma, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, til að reyna að bjarga málum í gegn þar sem rætt var um verkaskiptingu á þessum málaflokkum. Þá var ég formaður félags- og tryggingamálanefndar. (Gripið fram í: Þekkirðu málið?) Ég þekki það mál afar vel, hvernig það var unnið í upphafi og hvernig því var skipt. Ég hafði aldrei talað um að fjárhagslega ábyrgðin færðist á milli. Það liggur fyrir að félagsmálaráðuneytið fær peningana og hefur þar með eftirlit með framkvæmdinni. Það er sjálfsagt og eðlilegt að fjalla betur um með hvaða hætti því er fyrir komið.

Upphaflega var hugmyndin þannig (Gripið fram í.) að Sjúkratryggingastofnun keypti þjónustu til að sinna heilbrigðisþjónustu, ef ég man rétt og það getur hv. þingmaður staðfest því það var uppleggið með Sjúkratryggingastofnun. Sú stofnun er enn þá til og það þarf að útfæra þá vinnu miklu betur. Það þýðir ekki að það hafi einhver áhrif á fjárlögin eða upphæðirnar þar, eða það eigi að vera (Gripið fram í.) til þess að fjárlaganefnd fjalli um það með hvaða hætti samningar ganga á milli ráðuneyta. (Gripið fram í.) Það sem skiptir öllu máli er að upphæðirnar séu nægar, þjónustan sé veitt og henni sé sinnt að fullu eins vel og hægt er. Um það snýst málið. Með hvaða hætti verkefnum verður skipt á milli þessara tveggja ráðuneyta eða hvernig fjárhagslega ábyrgðin til lengri tíma verður, eftirlitið með framkvæmdinni og hvort hlutverk Sjúkratryggingastofnunar verður eins og upphaflega var lagt upp með, það verður frekara úrvinnsluatriði (Gripið fram í.) en er ekki fjárlaganefndar að fjalla um heldur heilbrigðisnefndar eins og hér kom fram í umræðunum í gær. (Forseti hringir.)

Ég vona að málið fái vandaða umfjöllun. Aðalatriðið er að því sé sinnt, það er okkar að tryggja að fjármagn sé til þess og það hefur verið gert í fjárlaganefnd.