138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi fá að taka til máls í tengslum við þá umræðu sem átti sér stað milli hv. þm. Péturs H. Blöndals og Helga Hjörvars um skattlagningu. Ég tek undir í meginatriðum það sem hv. þm. Helgi Hjörvar minntist á að aðlögunarþörf okkar er mikil og við þurfum að laga okkar veruleika að þeim tekjum og gjöldum sem ríkinu ber. Útfærsla á skattahugmyndum er réttlætismál, þar á meðal upptaka þrepaskiptingar.

Skattlagning séreignarsparnaðar — eins og ég hef verið almennt jákvæður gagnvart þeirri hugmynd þá er hún gríðarlega vandmeðfarin og þarfnast frekari umræðu á vettvangi þingsins. Það sýnir kannski vel hvernig þessi umræða hefur verið undanfarna mánuði að fyrst lögðu menn til að farið yrði í samtryggingakerfi allt saman. (Gripið fram í: Það er langt síðan, hálft ár síðan.) Síðan veltu menn fyrir sér þeim hugmyndum hvort við ættum að leggja á fjármagnstekjuskatt og nú eru menn komnir að þeim hugmyndum hvort skattlagning séreignarsparnaðar eigi að eiga sér stað. Þá er það spurningin: Eigum við að fara inn í allan stofninn eða eigum við að taka þessi árlegu gjöld eða árlegu tekjur sem sjóðirnir hafa? (Gripið fram í: Stofninn.)

Ef við ætlum að fara inn í allan stofninn þurfum við líka að átta okkur á því — og þar erum við aftur komin að skilgreiningu á hugtökum: Erum við að fá lán hjá framtíðinni eða erum við að færa til tekjur frá framtíðinni til okkar í dag? (Gripið fram í.) Þá þurfum við að velta fyrir okkur: Eigum við svo bágt í dag að það réttlæti að við förum í stofninn allan og tökum af þeim fjármunum sem við viljum að skattgreiðendur framtíðarinnar eigi hlutdeild í? Vissulega erum við að taka tekjur frá þeim. Við eigum alla þessa umræðu eftir og ég held að það sé skynsamlegt að efnahags- og skattanefnd fari ofan í þessar hugmyndir og skoði þær vandlega á næstu missirum. (Gripið fram í.) Við komumst ekki hjá því að fara í skattkerfið okkar, í þær tekjur sem íslenska ríkið hefur nú, til að bregðast við þeim aðstæðum að miklu munar nú á tekjum og gjöldum ríkisins.