138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:04]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins sem hv. efnahags- og skattanefnd hefur reyndar enn til meðhöndlunar því að við eigum enn eftir að klára útfærslu á þeim gríðarlegu skattbreytingum sem ríkisstjórnin ætlar að ráðast í um áramótin þannig að það er alger óvissa um tekjuhlið frumvarpsins eins og sakir standa og það er með ólíkindum að hlusta á menn tala um að hér hafi verið vandað til verka. Það er verið að leggja gríðarlegar álögur á heimilin og fyrirtækin í landinu. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því á undangengnum vikum að það yrði skoðað hver geta heimilanna á næsta ári verður í því að greiða hærri skatta ofan á það erfiða árferði sem hér ríkir. Því miður hefur ríkisstjórnin virt að vettugi það samráð sem við höfum viljað hafa við ríkisstjórnina við úrlausn þessa efnis og er niðurstaðan eftir því, að þetta frumvarp er ótækt til 2. umr., a.m.k. hvað tekjuhliðina varðar.