138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:08]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Eins og kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni er verið að leggja gríðarlegar álögur á íslenskt atvinnulíf með tryggingagjald upp á 8,6% sem er skattlagning á íslenskt atvinnulíf sem mun óhjákvæmilega þýða það að störfum á Íslandi mun fækka á næsta ári og atvinnuleysi mun aukast. Það er ábyrgðarhluti hjá ríkisstjórninni að leggja þessar álögur á atvinnulífið sem mun hafa slíkar afleiðingar á mjög erfiðum tímum.

Ég vil líka vekja athygli á því, frú forseti, að gjöld sveitarfélaganna í landinu vegna þessara hækkana munu hækka um 2 milljarða kr., sveitarfélaga sem mörg hver eiga í gríðarlegum erfiðleikum, og stjórnarmeirihlutinn hefur ekki svarað því í þessari umræðu hvernig mæta á þessum auknu gjöldum á sveitarfélögin en mörg þeirra standa ekki undir þessum kostnaði.