138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:27]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um aukna niðurgreiðslu á lýsingu í ylrækt. Ég lagði fram þingsályktunartillögu ásamt fjölda annarra þingmanna þar sem við hvöttum hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. landbúnaðarráðherra til að fara ofan í þessi mál og gera gangskör að því að garðyrkjan sæti við réttlátt borð hvað varðar orkuöflun og flutning á orku. Það hefur greinilega ekki unnist tími til þess og hér er þess vegna er valin sú leið að fara kannski lökustu leiðina, þ.e. að fara í auknar niðurgreiðslur aftur. Ég hef grun um að það sé borð fyrir báru í gjaldskrám raforkufyrirtækjanna þar sem má breyta gjaldskránni þannig að þessi niðurgreiðsla kæmi ekki til. Ég hvet fjárlaganefnd til að skoða þetta betur vegna þess að það er óeðlilegt að greiða fjármuni úr ríkissjóði ef hægt er að flytja raforkuna með eðlilegum hætti fyrir eðlilegt verð. Ég mun því sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.