138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[13:03]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Varðandi sjóðstreymi ríkissjóðs í 2. gr. frumvarpsins gildir það sama og um vaxtaþáttinn sem ég nefndi áðan í atkvæðaskýringu. Hér er um gríðarlegar fjárhæðir að ræða. Ég læt nægja að nefna sem dæmi að hér er verið að tala um að styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands um 220 milljarða. Það mál er algjörlega órætt í fjárlaganefndinni, sú færsla sem verið er að tala um að komi hér inn.

Það liggur heldur ekki fyrir lögbundin umfjöllun efnahags- og skattanefndar um lánsfjárgrein fjárlaga sem ætti að taka til þessarar greinar og við höfum ekki fengið þá umsögn inn í fjárlaganefnd þrátt fyrir þá breytingu sem hér er lögð til. Hefði verið mjög æskilegt að gefa sér tíma til að ræða þær miklu stærðir hér fremur en að elta ólar við það sem sumir þingmenn hafa meira að segja gert hér í umræðu um þetta mál, elta ólar við 500 þúsundkalla eða milljón.

Hér er verið að ræða um tugi, hundruð milljarða og það fæst ekki rætt eða rannsakað að neinu gagni svo vel ætti að vera þannig að fjárlaganefnd gæti tekið eins upplýsta ákvörðun í þessum efnum og unnt er.