138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[13:08]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli þingheims á lið 7, að kaupa og selja hluti í innlendum sparisjóðum í tengslum við endurskipulagningu sparisjóðakerfisins. Hér er um að ræða opna heimild til að fara í þetta. Ég vil minnast þess að í sumar var með miklu hraði afgreidd löggjöf um sparisjóðina, ég hygg að það hafi verið í maí eða júní, og það lá svo mikið á að koma þessu í gegn og þetta var svo brýnt og það átti að fara í svo miklar aðgerðir gagnvart sparisjóðunum að það þurfti að samþykkja þetta í einum grænum. Síðan hefur harla fátt gerst. Það er nauðsynlegt að fá upplýsingar um hvert er verið að stefna með þetta og hvaða áform ríkisstjórnin hefur hvað varðar sparisjóðina í landinu og hún láti af þeim vana sínum að keyra hlutina í gegn algjörlega með ófyrirséðum afleiðingum.