138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[14:55]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ræðu hans sem var bæði hófstillt og yfirgripsmikil eins og hans var von og vísa, auk þess sem frá honum koma margar ágætar ábendingar um það hvernig færa á inn í bókhald ríkisins ýmsar skuldbindingar sem ekki hefur verið gert hingað til en þó stendur til að fara að gera.

Þingmanninum var tíðrætt um að árangur af þeirri vinnu sem lögð var í ríkisfjármálin, endurskoðun ríkisfjármála í sumar, hefði ekki skilað sér og vitnaði þar m.a. til Ríkisendurskoðunar. Þetta er tónn sem hefur mátt heyra í málflutningi stjórnarandstöðunnar við umræðu um fjáraukalögin fyrr í haust og svo núna í umræðu um frumvarp til fjárlaga næsta árs.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir framkvæmd fjárlaga fyrstu átta mánuði ársins segir, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun hefur farið yfir forsendur nýrrar tekjuáætlunar ráðuneytisins“ — þ.e. fjármálaráðuneytisins — „og sér ekki ástæðu til að ætla annað en að þær eigi að geta gengið eftir. […] Ljóst þykir að stjórnvöldum hefur tekist að fylla það gat sem um mitt ár leit út fyrir að yrði á tekjuhliðinni og rúmlega það ...“ Segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Í gær, eins og ég hef áður nefnt úr þessum ræðustól, var síðan haldinn fundur, blaðamannafundur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem var að endurskoða eða fara yfir stöðu mála hér ásamt ríkisstjórninni, þar sem það sama kom fram, þ.e. að staðan á Íslandi er heldur betri en gert var ráð fyrir í upphaflegu mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þau tvö álit sem ég var að vitna til eru til vitnis um það (Forseti hringir.) að árangur hefur náðst. Ég vil spyrja þingmanninn (Forseti hringir.) að því hvort hann geti ekki tekið undir að það hafi a.m.k. náðst árangur þó að hann hafi ekki verið fullnægjandi að hans mati.