138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[16:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál snýst ekki um stolt mitt. Ég hef margoft sagt að það væri auðvitað mjög ákjósanlegt og þægilegt fyrirkomulag hjá okkur eins og það var áður fyrr þar sem við tókum yfir matvælalöggjöf Evrópusambandsins sem sneri að sjávarútveginum en vorum undanþegin löggjöf gagnvart landbúnaðinum. Um þetta snerust hins vegar verkefni stjórnsýslunnar á Íslandi árum saman, löngu áður en ég kom í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Þar var það einfaldlega orðið fullreynt, það var ekki hægt að búta þessa nýju löggjöf niður með þeim hætti sem áður var hægt að gera. Það var komin annars konar löggjöf og það er það sem ég hef verið að vísa til. Ég ber þá væntanlega ábyrgð á þeirri niðurstöðu sem núna er komin sem aðili að þessu máli og auðvitað vonast ég til þess að sú niðurstaða standist. En það væri náttúrlega í meira lagi óheiðarlegt af mér að halda því ekki fram sem ég tel sannast í þessum efnum.

Látið var á það reyna í einum þremur ríkisstjórnum, ef ég man rétt, hvort menn teldu að mögulegt væri að halda því fyrirkomulagi sem áður var. Mér finnst eins og menn tali svolítið um þetta mál eins og það hafi ekkert gerst í hinni evrópsku löggjöf. Hún er gerbreytt. Hún er ekki eins og hún var. Við erum að tala um heildstæða löggjöf sem nær til matvælaframleiðslu og þá er ekki gerður greinarmunur á því hvort við erum að tala um kjöt eða fisk. Það er þetta sem málið snýst um. Mér varð síðan ljóst — það tók dálítinn tíma fyrir mig að kyngja því eins og forvera minn hæstv. landbúnaðarráðherra Guðna Ágústsson — að þetta var verkefni sem þyrfti að vinna með þeim hætti að heimila lögtöku þessarar löggjafar án þess að það hefði neikvæð áhrif fyrir landbúnaðinn. Það var það sem ég taldi að væri mitt stóra verkefni og ég var að rembast við að gera (Forseti hringir.) þau missiri sem ég var landbúnaðarráðherra.