138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[16:11]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, hv. þingmaður ver enn þær gerðir að heimila áfram innflutning á hráu kjöti. En mig langar að spyrja hann að öðru, þ.e. aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Þar erum við sammála, ég og hv. þingmaður, um að Íslandi sé betur borgið utan þess. Telur hann ekki að það styrki samningsstöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu að setja þetta ekki inn í frumvarpið núna því að þá getum við hiklaust haldið því fram að við höfum innleitt þetta með þessum hætti? Telur hann ekki að það styrki okkar stöðu í viðræðum við Evrópusambandið?

Síðan langar mig að minnast á dýralæknaþjónustu í hinum dreifðu byggðum því að þær breytingar koma nú inn og eru veigamiklar í þessu frumvarpi núna. Taldi hv. þingmaður, meðan hann gegndi embætti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eðlilegar þær breytingar sem gerðar voru? Taldi hann eðlilegt að blanda inn hálfgerðum niðurskurðartillögum gagnvart landsbyggðinni? Fannst hv. þingmanni rétt að leggja niður þessi dýralæknisembætti? Telur hv. þingmaður þær breytingar sem nú koma inn ekki eðlilegar? Af hverju beitti hann sér ekki fyrir þessu meðan hann gegndi embætti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra?

Að öðru leyti vil ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir ræðu hans og fagna því að hann skuli vera á nefndaráliti ásamt öllum öðrum í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd. Ég vonast til að málið fari í gegn með sóma og þverpólitískri samstöðu.