138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[16:36]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er búið að fara ansi vel yfir þetta mál og kannski ekki miklu við það að bæta að svo stöddu. Ég vil þó koma inn á nokkur atriði. Hér er um að ræða mál sem vissulega hefur verið mikið ágreiningsmál og ég vil byrja á að halda því til haga að ég tel að með því að breyta vinnubrögðum okkar í framtíðinni í málum sem þessum getum við sparað okkur öllum, umsagnaraðilum, okkur í þinginu og ráðuneytunum, mikla vinnu við frágang slíkra mála. Það yrði þá gert með því að taka upp þau vinnubrögð sem við höfum viðhaft yfirleitt í samningaviðræðum okkar við aðrar þjóðir um fiskveiðiheimildir en þar höfum við gjarnan tekið með okkur til þeirra viðræðna fulltrúa hagsmunaaðila sem síðan hefur leitt það af sér að menn koma þá sannfærðir heim úr þeim viðræðum um að lengra verði ekki komist. Ég tel að ef við hefðum borið gæfu til þess á sínum tíma að gefa Bændasamtökunum og jafnvel öðrum aðilum, samtökum í sjávarútvegi, möguleika á því að taka þátt í og vera hreinlega þátttakendur í þessum viðræðum við Evrópusambandið sem fram hafa farið á undanförnum árum um þetta mál hefðum við getað sparað okkur mikla vinnu. Þetta þarf ekki að gerast með neinum aukakostnaði af hálfu hins opinbera vegna þess að ég er sannfærður um að þau samtök mundu mjög glöð standa undir þeim kostnaði sem hlýst af slíkri vinnu fulltrúa þeirra.

Það hlýtur að vera ákveðið óbragð í munninum á hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar hann þarf að leggja þetta frumvarp fram og ýta því í raun í gegnum þingið, sérstaklega í ljósi allrar þeirrar umræðu og allra þeirra stóru yfirlýsinga sem sérstaklega þingmenn Vinstri grænna hafa viðhaft í þessu máli og í þeirri umræðu sem fram hefur farið alveg síðan 2007. Afstaða Vinstri grænna hefur svo sem legið alveg skýr fyrir og afstaða Samfylkingarinnar líka. Samfylkingin hefur ekki farið neitt dult með það að vilja keyra þetta mál í gegn á meðan fulltrúar Vinstri grænna hafa gegnum tíðina í raun fundið þessu frumvarpi allt til foráttu og talað þannig við þjóðina og hagsmunaaðila að hér væri um að ræða mál sem við gætum hreinlega sleppt að fara í gegnum. Það má rifja upp ummæli sem hafa legið að því að þetta mundi reynast bændum mjög hættulegt og stefna fæðuöryggi þjóðarinnar í hættu og þetta yrði ógn við hundruð starfa o.s.frv. Gagnrýnin hefur kannski öll beinst í þann sama farveg að menn færu í viðræður við Evrópusambandið að nýju til þess að ná betri niðurstöðu en hér var lagt upp með. Það hefur aftur á móti ekki verið gert þegar málaflokkurinn er kominn í hendur hæstv. ráðherra frá Vinstri grænum heldur hefur hann kosið að gera einhliða breytingar á frumvarpinu í þá átt sem hér ber vitni um.

Ég vil taka undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni þegar hann rakti efasemdir um það áðan að þetta væri líklegt til að ná í gegn. Um það þarf í sjálfu sér ekkert að fjalla í mörgum orðum, virðulegi forseti, en sannleikurinn er samt alltaf sagna bestur þegar kemur að svona málum og það er best að gera sér fyllilega grein fyrir því hvað hér er um að ræða. Það verður ekki frá því vikist að ef við ætlum að vera aðilar að EES-samningnum, hvort sem kemur til Evrópusambandsaðildar eða ekki síðar meir, sem ég á síður von á, er þetta bara hluti af þeim samningi. Það er miklu betra fyrir okkur, í stað þess að vera með einhverja friðþægingu í þeim frumvörpum sem við leggjum fram, að takast á við vandamálið ef það er þá til staðar, og gera okkur nákvæmlega grein fyrir því hvert það er og hver staða okkar er.

Vissulega er tilefni til þess að hafa áhyggjur af því að innflutningur á hráu kjöti geti aukist miðað við að þessi löggjöf verði innleidd. Það er þó kannski fyrst og fremst ógn við eina tegund kjötvöru og þar er nokkuð langur aðlögunartími sem sú grein hefur að málinu meðan innleiðingin er að fara í gegn, sem getur tekið allt að 18–20 mánuðum. Við þurfum auðvitað á þeim tíma að gera okkur nákvæmlega grein fyrir því í hverju ógnin getur falist, vera raunhæf og fara í það verkefni að beita öllum þeim vörnum sem við mögulega getum til handa íslenskum landbúnaði vegna þess að það held ég að sé sameiginlegt markmið okkar allra, alla vega veit ég að það er skoðun okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins og við deilum því með mörgum öðrum þingmönnum, þó að vissulega séu uppi raddir og sjónarmið í þinginu um það að íslenskur landbúnaður sé ekki mjög mikilvægur. Það er kannski fyrst og fremst þar sem við þurfum að skoða málin, hvernig við getum varið íslenskan landbúnað, hvernig við getum tryggt og varið innlenda matvælaframleiðslu og að við leggjumst á eitt í því að beita þeim vörnum sem hægt er og stuðla að því að hér verið áfram blómleg byggð til sveita og öflug matvælaframleiðsla.

Við höfum verið minnt á það, núna bara á síðasta ári, hversu mikilvægt það er fyrir þjóð að vera sjálfbær í matvælaframleiðslu. Við sjáum að matvælaverð í heiminum er á mikilli uppleið. Það er því mikilvægt að hlúa að þessum sprotum. Við erum einangruð eyja í Norðurhöfum og við höfum blessunarlega verið laus við ákveðna sjúkdóma sem herja á búfé, t.d. í Evrópu og víðar, og það eru slíkar varnir sem við þurfum fyrst og fremst að reyna að hafa eins öflugar og mögulegt er. Það fullyrði ég að var markmið hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar þegar hann var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á sínum tíma. Hann ítrekaði það í ræðu og riti að það væri það leiðarljós sem hann hefði, að reyna að vernda hagsmuni íslensks landbúnaðar eins og hægt væri, en þó með þeim raunsæju sjónarmiðum að þessa matvælalöggjöf yrði að innleiða hér ef við ætluðum að vera aðilar að EES-samningnum.

Það er ekki svo sem hægt að segja að núverandi ríkisstjórn sé að líta til þess þáttar að styrkja landbúnað og efla landbúnað samhliða þessu í þeim aðgerðum og hugmyndum sem á hennar borði eru. Ég rakst á það núna að í smíðum væri tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013 og hafði þær fréttir frá Bændasamtökunum að þar væri ekki minnst einu orði á hefðbundinn landbúnað og sáralítið fjallað um sjávarútveg. Það má segja að þetta veki furðu í ljósi þess að hér er um að ræða höfuðatvinnuvegi í byggðum víða um land. Þetta veldur áhyggjum og ég veit ekki hvaða öfl innan ríkisstjórnarinnar ráða ferð þegar fjallað er um málin með þessum hætti og á þeim tíma sem við þyrftum í raun að vera að leita allra leiða til að efla íslenskan landbúnað, ekki síst ef við horfum raunsætt á það að eftir 20 mánuði með innleiðingu þessa frumvarps verður samkeppnisstaða innlends landbúnaðar erfiðari en áður.

Fram kemur í drögum að þessari byggðaáætlun að markmiðið sé að bæta skilyrði til búsetu, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar í öllum landshlutum en ekki er minnst einu orði á hefðbundinn landbúnað og ekki að finna stafkrók um það. Það er minnst aðeins á veiðarfæra- og veiðitæknirannsóknir í einum kafla og síðan er fjallað um lykilsvið eflingu ferðaþjónustu, og þá er eingöngu einu sinni aðeins vikið að því að það þurfi að efla ferðaþjónustu tengda landbúnaði.

Það vekur aftur athygli að í þessari tillögu til þingsályktunar kemur fram kafli þar sem fjallað er um lykilsvið samþættingu áætlana og aukið samstarf, heill kafli tekinn undir það sem kallað er stuðningur og ráðgjöf ESB á umsóknartíma og markmiðið í þeim kafla sagt vera að Ísland nýti sér stuðning ESB til markvissari áætlunargerðar og uppbyggingar stofnana og samstarfs.

Ég vona að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nái að hafa meiri áhrif á málin en kemur fram í þessu skjali og að menn einhendi sér í það núna að undirbúa þær varnir og þann stuðning sem við þurfum að hafa gagnvart íslenskum landbúnaði þannig að hann megi áfram blómstra og vera sá grundvöllur í byggðum landsins og atvinnulífi þar, sem hann er, og að gegna áfram því mikilvæga hlutverki sem hann gegnir í fæðuöryggi þjóðarinnar.