138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

sjúkratryggingar.

199. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti við frumvarp til breytinga á lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008, með síðari breytingum.

Nefndin hefur um málið og fengið á fund sinn Guðríði Þorsteinsdóttur, sviðsstjóra laga- og stjórnsýslusviðs heilbrigðisráðuneytisins. Með frumvarpinu var lagt til að frestað verði að flytja samningagerð er varðar samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili til Sjúkratrygginga Íslands. Í IV. kafla laganna er kveðið á um að Sjúkratryggingastofnunin skuli annast samningsgerð um veitingu heilbrigðisþjónustu en samningsgerðin var áður í höndum heilbrigðisráðuneytisins og samninganefndar heilbrigðisráðherra. Samkvæmt gildistökuákvæði 56. gr. laganna er gert ráð fyrir að samningsgerðin muni flytjast til stofnunarinnar í þremur áföngum. Við gildistöku laganna, 1. október 2008, fluttist sá hluti sem áður hafði verið hjá samninganefnd heilbrigðisráðherra. Hluti samninga sem voru á hendi ráðuneytisins fluttist 1. júlí sl. og á áðurnefndur hluti samningsgerðar að flytjast til Sjúkratrygginga Íslands 1. janúar 2010. Fram kom á fundi nefndarinnar að Sjúkratryggingar Íslands hafi þegar tekið við gerð þjónustusamninga en það hafi reynst stærra verk en áætlað var. Ástæður þess hafi meðal annars verið að framlag til þjónustusamninga hafi verið lækkað og því hafi stofnunin þurft að endursemja með tilliti til þess. Af þessum sökum er lagt til með frumvarpinu að fresta gildistöku ákvæðisins er varðar samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Þórunn Sveinbjarnardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir þetta nefndarálit skrifa aðrir fulltrúar heilbrigðisnefndar.