138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

sjúkratryggingar.

199. mál
[17:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf ekkert að deila við hæstv. ráðherra um ástæður frestunarinnar en við skulum ekki gera lítið úr þeirri samningagerð sem snýr að hjúkrunarheimilunum. Það má alveg færa rök fyrir því að þó svo að Landspítalinn sé t.d. gríðarlega stórt verkefni varðandi samningagerð og í rauninni snýst þetta í þessu tilfelli — og manni sýnist svo vera líka í þeim löndum sem við bárum okkur saman við eins og á Norðurlöndunum — um það að vanda betur fjárlagagerð. Við munum ekkert semja við marga aðra aðila, ef nokkra, um flesta þá þætti sem Landspítalinn er með, það er ekkert valkostur í því, en það væri betra fyrir alla aðila að það væri betur skilgreint í fjárlagagerðinni hvað eigi að gera og hvað menn eru að semja um að Landspítalinn taki og haldi utan um og að það sé samanburður í því tilfelli á milli Íslands og annarra landa.

Það er alveg ljóst að við þurfum að nýta hlutina öðruvísi út af breyttu efnahagsástandi og þetta er ein afleiðingin af því. Öll þessi hjúkrunarheimili sem eru til staðar, og undir eru hvorki meira né minna en 20 milljarðar kr., og við erum með mjög marga aðila sem koma að þeim málum og nokkuð fjölbreytta þjónustu, við skulum ekki gera lítið úr því verkefni, það verkefni er stórt. Við getum heldur ekkert skautað fram hjá því, þegar við göngum frá fjárlögum sem gera ráð fyrir þessum verkefnatilflutningi, að ræða það praktískt hvernig eigi að gera það. Það hefur ekki verið hugsað fyrir því og það vita það allir sem sitja í heilbrigðisnefnd, það hefur margoft komið fram. Það hefur ekki verið hugsað fyrir þessu og þetta frumvarp (Forseti hringir.) tengist því, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.