138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

sjúkratryggingar.

199. mál
[17:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að þetta mun bitna á þjónustunni, við skulum ekkert vera neitt að halda neinu öðru fram. Hér kemur hæstv. heilbrigðisráðherra og bendir réttilega á að þetta sé ekki vel undirbúið, og það vita það allir sem hafa skoðað þetta. Auðvitað eru þetta ekkert annað en hrossakaup. Ef menn vilja færa þetta yfir til sveitarfélaganna og slík þjónusta hefur verið færð til þriggja sveitarfélaga, Hafnar í Hornafirði, Akureyrar og heimahjúkrun hefur farið til Reykjavíkur. Kom félags- og tryggingamálaráðuneytið einhvern tímann að því? Aldrei, nákvæmlega ekki neitt. Til hvers? Það var ekkert sem mælir með því.

Ef hæstv. heilbrigðisráðherra hefur áhuga á því, og ég vona að hún hafi það og ætla að hún hafi það sem heilbrigðisráðherra, að samþætta þjónustuna, félagslega þjónustu hjá sveitarfélögunum við heimahjúkrunina, þá gerir hann bara eins og ég gerði, ég bara samdi við Reykjavíkurborg um að taka heimahjúkrunina yfir og sameina þetta. Af hverju að blanda fleirum inn í það? Hvað vinnst við það?

Þessi rök halda ekki og auðvitað veit hæstv. ráðherra það og allir þeir sem hafa skoðað þetta. Því miður hafa orðið hér hrossakaup og Samfylkingin er einhverra hluta vegna með þetta mál algjörlega — það er ekki hægt að orða það öðruvísi — á heilanum, og það er ekkert búið að undirbyggja þetta og það er engin hugsun í þessu. Það hefur ekkert með stefnumótun að gera að færa þjónustuna nálægt fólkinu því að það þarf ekkert annað ráðuneyti í það. Heilbrigðisráðuneytið er sá aðili sem á hvort heldur er að halda utan um faglega þáttinn þegar þetta er farið yfir til sveitarfélaganna þannig að það er engin skynsemi í því, nákvæmlega engin, raunar bara óskynsemi, að vera að þvæla fleirum inn í það mál.