138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

dómstólar.

307. mál
[18:39]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um dómstóla. Í því er lagt til að heimilt verði að fjölga héraðsdómurum tímabundið um sinn, þ.e. úr 38 í 43. Þessi fjölgun er tímabundin að því leyti að gert er ráð fyrir að dómarar verði samtals 43 fram til 1. janúar 2013 en eftir þann tíma skal ekki skipa í embætti héraðsdómara sem losna fyrr en þess gerist þörf til að dómarar í héraði verði 38 að tölu. Þannig er gert ráð fyrir að dómurum fækki smám saman eftir 1. janúar 2013 úr 43 í 38.

Bankahrunið, aðdragandi þess og eftirleikur hefur haft mikil áhrif á stofnanir réttarvörslukerfisins. Eru dómstólarnir þar ekki undanskildir eins og ég skýrði frá í umræðu utan dagskrár um fjárhagsstöðu dómstóla sem fram fór 12. nóvember sl. Ég greindi þá frá því að búast mætti við að dómstólarnir þyrftu í fyrsta lagi að takast á við aukinn fjölda sakamála vegna efnahagsbrota. Í öðru lagi mætti gera ráð fyrir auknum fjölda einkamála fyrir dómstólum, þar með talið kærumálum vegna slita á fjármálafyrirtækjum. Í þriðja lagi má til viðbótar gera ráð fyrir auknu álagi á dómstóla vegna nauðasamninga til greiðsluaðlögunar og við tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðlána. Gerð er nánari grein fyrir þessum atriðum í greinargerð með frumvarpinu.

Til þess að þingheimur glöggvi sig enn frekar á stöðunni má því til viðbótar upplýsa að beiðnir um nauðasamninga til greiðsluaðlögunar og beiðnir um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna eru fjölmargar en um er að ræða ný verkefni dómstóla og því hreina viðbót við þann málafjölda sem fyrir er. Er heildarfjöldi þeirra mála nú á bilinu 400–500. Þær upplýsingar hafa jafnframt borist frá skilanefndum hinna föllnu banka að ágreiningsmál vegna riftunar og lýstra krafna verði borin undir dómstóla. Erfitt er að sjá fyrir hversu mörg þau mál kunni að verða. Við óformlega könnun hjá skilanefndum og slitastjórnum hinna föllnu banka kom fram að áætla mætti að heildarfjöldi slíkra mála kynni að hlaupa a hundruðum ef allt væri tekið saman og líklegra væri að þau kynnu að verða jafnvel um 1.000–1.200. Þess má geta að dómstólaráð gerir ráð fyrir að þessi ágreiningsmál verði um 1.000–2.000 og að mörg hver verði mjög þung. Búist er við að þessi mál fari að streyma til dómstóla upp úr áramótum. Allt er þetta þó enn á reiki enda er kröfuhafafundum til að mynda ekki lokið í öllum tilvikum.

Virðulegi forseti. Hvað sem endanlegum fjölda mála líður virðist óhætt að fullyrða að dómsmálum muni fjölga umtalsvert á næstu mánuðum og árum og ljóst að í náinni framtíð muni dómstólar þurfa að takast á við aukinn málafjölda í áður óþekktum mæli. Mun því verulega mæða á dómstólum hvort heldur litið er til héraðsdómstólanna eða Hæstaréttar. Með þetta í huga er lagt til að dómurum verði fjölgað og einnig er gert ráð fyrir fjölgun aðstoðarmanna dómara.

Gert er ráð fyrir í frumvarpinu að fjölgun dómara sé tímabundin enda gengið út frá því að aðstæðurnar sem lýst hefur verið séu óvenjulegar og tímabundnar. Framkvæmdin yrði þannig að auglýst verður eftir fimm dómurum og þeir skipaðir ótímabundið svo sem gildir um aðra dómara. Síðan þegar stöður dómara losna eftir 1. janúar 2013 verður ekki skipað í stöður dómara fyrr en dómarar eru orðnir 38 að tölu eins og ég kom inn á í byrjun.

Ég tel í lokin rétt að minna á að dómstólaráð hefur þegar komið fram með tillögu um hagræðingu innan dómstólanna með sameiningu dómstólanna í einn og er það mál nú til meðferðar í hv. allsherjarnefnd. Verði það frumvarp að lögum gefst dómstólaráði tækifæri til að hagræða í starfsemi héraðsdómstólanna og fullnýta þá starfskrafta sem þar eru til staðar. Þó mun það hvergi nærri duga til og því hefur þetta frumvarp sem nú er til umræðu verið lagt fram.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr.