138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[18:59]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem blasir við þessari ríkisstjórn er það risastóra og um leið það gríðarlega viðkvæma verkefni að rétta þjóðarskútuna af og reyna að loka fjárlagagatinu. Ég segi „viðkvæma verkefni“ vegna þess að við þurfum auðvitað að gæta að því að setja samfélagið ekki á hliðina. Við þurfum að gæta að því að höggva ekki í ákveðnar atvinnugreinar. Við þurfum að gæta að því að þeir tekjulægstu verði ekki heldur fyrir höggi og við þurfum að gæta að því líka að halda hjólum atvinnulífsins gangandi um leið og við gætum að þeim sem hafa minnst á milli handanna. Þetta er mjög vandasamt verk. Þess vegna ákváðum við að í staðinn fyrir að nota einhverja hókus-pókus aðferðafræði eins og menn hafa gjarnan viljað fara, þ.e. að fara einhverja eina leið í skattlagningunni, að dreifa þunnu lagi yfir samfélagið í þeim efnum. Ég held að okkur hafi tekist vel upp í þeim efnum. Eins og hv. þingmaður veit voru mikil mótmæli við hinum háa raforkuskatti af hálfu þessara stóru fyrirtækja við sem hefði komið mjög illa við þá. Þetta varð niðurstaðan og ég held að það samkomulag sem náðst hefur á milli okkar og þessara gríðarlega mikilvægu greiðenda skatttekna úr atvinnulífinu hér á landi skipti verulega miklu máli vegna þess að friður þarf líka að ríkja um það sem fram undan er. Það má ekki gleyma því hversu dýrmætur friður er í samfélagi okkar á þessum erfiðu tímum.