138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[20:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. fjárlaganefnd fyrir góða vinnu við þetta mál. Þegar fjárlögum var lokað í desember sl. fyrir árið 2009 var áætlaður halli á rekstri ríkissjóðs upp á 153 milljarða kr. Eins og horfur stóðu um mitt sumar og síðsumars stefndi í að halli á fjárlögum þessa árs eða halli á rekstri ríkissjóðs á þessu ári yrði yfir 180 milljarða kr. þrátt fyrir yfir 20 milljarða ráðstafanir með tekjuöflun og sparnaði á miðju ári.

Síðan hefur orðið sú ánægjulega þróun á haustmánuðum og fram að því að þessu er nú lokað að hallinn stefnir nú í að verða um 158 milljarðar kr. og kemur þar hvort tveggja til að aðstæður hafa þróast með hagstæðum hætti á haustmánuðum, vaxtakostnaður ríkissjóðs verður minni, atvinnuleysi minna o.fl. auk þess sem tekjustofnar hafa heldur styrkst á haustmánuðum.

Þegar upp er staðið held ég því að við getum verið sátt við þá þróun sem breytingar haustmánaðanna birta okkur í þessu frumvarpi til fjáraukalaga og verður nálægt því marki sem menn höfðu sett sér í upphafi ársins og má það kalla vel sloppið miðað við allt það sem á hefur gengið.