138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[20:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að heyra að álfyrirtækin eru svo uppfull af fórnfýsi að þau hafi viljað fórna sér fyrir íslenskt atvinnulíf og taka þátt í erfiðleikum íslensku þjóðarinnar. Það er ánægjulegt. Ég veit hins vegar ekki betur en að það hafi verið tilkynnt að leggja ætti eina kr. á hverja kílóvattstund strax í byrjun hausts og þegar mönnum var bent á þessa samninga sem gerðir höfðu verið var það frekar léttvægt í augum margra.

Ég vil hins vegar að þetta verði rætt í efnahags- og skattanefnd þar sem ég á sæti því að mig langar virkilega til að heyra hvað er raunverulega á bak við þetta, inn á hvaða brautir menn eru að fara, því að mér er ekki kunnugt um að skattgreiðendur almennt, hvorki hér á landi né annars staðar semji um það við ríkisvaldið að greiða skattana fyrir fram langt fram í tímann. Eitthvað hljóta menn að sjá fyrir sér í því. Þetta getur varla verið bara góðgerðarstarfsemi en það getur vel verið að álfyrirtækjunum á Íslandi hafi verið breytt í góðgerðarfyrirtæki. Það er þá alveg nýtt í mínum huga. Þau ætla sem sagt að ná einhverju fram með þessu, annaðhvort að losna við einhvern þrýsting eða þá að þau sjá sér einhvern hag í þessu. Þau eru í rauninni að veita lán með 0% vöxtum í viðkomandi mynt.