138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[20:58]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við tökum hér fyrir frumvarp til laga um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ. Er það fyrsti fjárfestingarsamningur við slíkt gagnaver og má segja fyrsti sinnar tegundar við þess háttar fyrirtæki og er það vel.

Með frumvarpinu er lagt til að iðnaðarráðuneytinu og ráðherra verði heimilað að ganga til samninga fyrir hönd ríkisstjórnarinnar við Verne Holdings ehf. og Verne Real Estate ehf. vegna byggingar og reksturs gagnavers við Ásbrú í Reykjanesbæ. Áætlanir Vernes, eins og margir hér inni þekkja, ganga út á að breyta tveimur vörugeymslum af gamla varnarliðssvæðinu í gagnaver og byggja tvær byggingar til viðbótar á aðliggjandi landi. Stjórnendur Vernes áætla að eldri byggingarnar tvær verði tilbúnar til notkunar árið 2010 og að sú fjárfesting muni nema um 100 milljónum bandaríkjadala.

Samkvæmt áætlun Vernes verður fyrsta byggingin komin í fulla notkun í byrjun árs 2012 og gerir félagið ráð fyrir því að allar fjórar byggingarnar verði komnar í fullan rekstur í ársbyrjun 2016 í u.þ.b. 20 þús. fermetra tæknirými sem gæti þarfnast alls 80–140 MW af raforku til að knýja og kæla tölvubúnaðinn í gagnaverinu.

Virðulegi forseti. Reiknað er með að um 180–220 störf skapist þegar mest er vegna verkefnisins og þegar framkvæmdir eru í hámarki á uppbyggingartíma. Þar af er áætlað að um 100 störf skapist á vegum fyrirtækisins þegar rekstur er kominn á fullan skrið og á sjö ára uppbyggingartímabili er reiknað með að um 100 störf skapist í byggingariðnaði. Þarna er því um fjölbreytt störf að ræða.

Þann 23. október sl. voru drög að fjárfestingarsamningi undirrituð eða árituð af fulltrúum iðnaðarráðuneytisins ásamt fulltrúum félaga og eigenda. Í framhaldi af því er þetta frumvarp lagt fram þar sem óskað er eftir heimild Alþingis til að ganga frá undirritun fjárfestingarsamningsins. Efnislega er í drögum að fjárfestingarsamningi við Verne og í frumvarpi þessu kveðið á um tiltekin frávik frá almennum lögum, en einnig er lagt til að gildistími þessa fjárfestingarsamnings við Verne verði 20 ár frá undirritun hans með mismunandi ívilnunum eftir mismunandi tímabilum samningsins.

Þau frávik sem fram koma í frumvarpinu og afmörkuð eru við verkefnið og félögin tvö eru í stuttu máli þessi:

Í fyrsta lagi, og það má segja að þetta sé verðmerkti hlutinn, er tryggt að tekjuskattshlutfall félaganna verði ekki hærra en 15% fyrstu fimm árin af gildistíma fjárfestingarsamningsins, 18% næstu fimm ár þar á eftir og síðan er fyrirtækið varið upp að 25% síðustu tíu árin án þess að í því felist nein áform um að fara með skatta þangað.

Til samanburðar er tekjuskattshlutfallið fest í 15% í fjárfestingarsamningi við Helguvík en í fjárfestingarsamningi vegna álvers á Grundartanga og álvers á Reyðarfirði er hlutfallið fest í 18% eins og ég hef áður komið inn á í umræðum um málið. Því er hér um töluvert minni tryggingu eða ívilnun að ræða en í fyrri fjárfestingarsamningum hvað þetta varðar en fjárfestingin er líka minni en verið hefur í áðurnefndum verkefnum.

Í öðru lagi er um að ræða ákveðnar sérreglur varðandi fyrningu eigna sem að mestu eru sambærilegar fyrri fjárfestingarsamningum, einnig undanþága frá iðnaðarmálagjaldi og markaðsgjaldi. Þarna er líka um að ræða sérreglur varðandi stimpilgjald og skipulagsgjald, sérreglur varðandi útreikning fasteignaskatts sem gerður hefur verið samningur um við Reykjanesbæ, undanþága frá rafmagnsöryggisgjaldi og þá er líka um að ræða ýmis öryggisákvæði varðandi upptöku nýrra skatta. Eins og fram hefur komið í umræðum um málið eru sams konar ákvæði í þessum samningi og í öðrum fjárfestingarsamningum sem verja fyrirtæki fyrir sérsköttum.

Iðnaðarráðuneytið hefur látið reikna út þá ívilnun sem telja má að felist í framangreindum frávikum frá almennum lögum um skatta og opinber gjöld. Miðað við núvirðisútreikninga yfir 20 ára tímabil telst ívilnunin vera 5,4 milljónir bandaríkjadala en til samanburðar er áætluð heildarfjárfesting vegna gagnaversins 726 milljónir bandaríkjadala, þ.e. fyrir fullbúið gagnaver árið 2016 samkvæmt þeim uppbyggingaráætlunum sem ég lýsti hér áðan. Hin eiginlega áætlaða ríkisaðstoð sem í frumvarpinu og fjárfestingarsamningnum felst er því samtals 0,7% af heildarfjárfestingarkostnaði verkefnisins. Er það hlutfall vel innan við hámark leyfilegrar byggðaaðstoðar á svæðinu samkvæmt byggðakorti því sem ESA hefur samþykkt fyrir Ísland. Til samanburðar má geta þess að í fyrri fjárfestingarsamningum, t.d. vegna álvera á Grundartanga, á Reyðarfirði og í Helguvík, hefur þetta hlutfall verið 2–3% af fjárfestingarkostnaði en eins og áður sagði er hér um að ræða 0,7%.

Í samræmi við 61. gr. EES-samningsins verður EFTA eða Eftirlitsstofnun EFTA tilkynnt um þá ríkisaðstoð sem felst í frumvarpinu og drögum að fjárfestingarsamningi. Þeir hafa nú þegar verið látnir vita af þessu en verður tilkynnt formlega um þetta næstkomandi föstudag. Í drögum að þessum fjárfestingarsamningi er fyrirvari um samþykki ESA á þessum ríkisstyrk eða þessari ríkisaðstoð.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að draga umræðuna langt fram á kvöld enda mörg mál sem bíða en ég hef oft og tíðum rætt um það hversu spennandi kostur það er fyrir okkur Íslendinga að byggja upp gagnaver hér á landi. Bæði höfum við til þess góðar aðstæður vegna þess að við höfum aðgengi að grænu rafmagni og einnig er náttúruleg kæling töluverð, en á því þurfa þessi gagnaver að halda.

Í atvinnulegu tilliti er það mjög spennandi fyrir okkur Íslendinga að fara í þessa uppbyggingu. Það hefur sýnt sig í löndunum í kringum okkur og þar sem þess háttar starfsemi hefur byggst upp að í kringum þau byggjast klasar af hátækni- og þjónustufyrirtækjum við starfsemina. Í því felast gríðarleg sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga og ég veit líka að töluvert er horft til okkar hvað uppbyggingu á þessu sviði varðar til framtíðar litið. Ef eitthvað er mun þörfin fyrir gagnaver aukast í nánustu framtíð og líka til lengri framtíðar litið. Þá erum við Íslendingar vel staðsettir, á milli Bandaríkjanna og Evrópu, til þess að reka þess háttar starfsemi. Ég held því að þessi fjárfestingarsamningur sé ísbrjótur fyrir þessa nýju starfsemi hér á landi. Fjöldinn allur af fyrirtækjum hefur verið að bíða eftir því að þessari samningagerð verði lokið þannig að menn átti sig á því hvers lags umhverfi við Íslendingar bjóðum slíkum fyrirtækjum komi þau hingað. Þessum fyrirtækjum fylgja líka viðskiptavinir sem eru mjög stórir og vonandi fá þeir áhuga á Íslandi sem fjárfestingarkosti á öðrum sviðum eftir að hafa komið hingað í gegnum gagnaver.

Virðulegi forseti. Ég verð þó að segja að ég vona að við munum ekki sjá mörg frumvörp af því tagi sem ég legg hér fram koma fyrir þingið. Ég lít svo á að samningagerð við einstaka fyrirtæki sé allt of þunglamaleg til þess að geta verið framtíðarfyrirkomulag hjá okkur. Þessi samningagerð tekur langan tíma. Þetta þarf að fara í gegnum þingið í því formi sem ég er hér að kynna og þegar það hefur farið í gegnum þingið þarf það að fara til Eftirlitsstofnunar EFTA. Þetta er þunglamalegt ferli og að auki ógagnsætt vegna þess að fyrir fram vita þessir aðilar ekki hvaða umhverfi þeim býðst hér. Það er því ætlun ríkisstjórnarinnar og mín að leggja fram nýtt frumvarp á nýju ári sem býr til ramma utan um allar ívilnanir nýfjárfestinga. Þegar það frumvarp hefur verið afgreitt liggur það fyrir, þegar fyrirtæki leitar sér staðsetningar, hvers lags ívilnanir við höfum upp á að bjóða fyrirtækjum á uppbyggingarskeiði. Það liggur þá líka fyrir að það þarf ekki að taka allan þennan tíma sem ég hef hér lýst að fara í gegnum það ferli með okkur Íslendingum.

Virðulegi forseti. Ég tel þetta mun farsælli leið fyrir þess háttar aðgerðir og það gerir okkur líka samkeppnishæfari gagnvart nágrannaþjóðum okkar. Slíka rammalöggjöf er að finna í Svíþjóð, í Finnlandi, í Kanada og í öðrum þeim löndum sem við keppum við um fjárfestingar af þessu tagi. Það er því eðlilegt að við séum á pari og samkeppnishæf við þessi ríki. En þangað til sú löggjöf er komin í gagnið notum við þá aðferð sem hér er beitt, að leggja fram sérstaka fjárfestingarsamninga. Ég fagna því mjög að hingað skuli kominn aðili sem er jafnákveðinn og raun ber vitni í að byggja upp fyrsta gagnaverið hér á landi.

Að svo sögðu mælist ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnaðarnefndar.