138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[21:17]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er til að svara að í þessu máli er alfarið um erlenda fjárfestingu að ræða. Eins og kemur fram í frumvarpinu er horft til þess að hlutafé verði aukið í félaginu og er verið að vinna að því. Þetta er í eigu tveggja félaga eins og réttilega hefur verið bent á, Novators, sem er í minni hluta, og Teha, sem er í eigu General Catalyst, en það er bandarískur sjóður, og síðan í eigu starfsmanna og stjórnenda fyrirtækisins. Áætlað er að menn fari síðan í hlutafjáraukningu og þá mun hlutur þess fyrirtækis sem ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé að vísa til sem íslensks aðila í þessu enn minnka. Þarna er því alfarið um að ræða erlenda fjárfestingu, annars hefði ESA ekki heimilað þetta eins og gert hefur verið.

Virðulegi forseti. Varðandi spurninguna um ESA er það svo að á fundi í lok sumars var tilkynnt að þetta stæði til. Síðan er formlega tilkynnt um þessa samningagerð og að þetta sé komið til þingsins. Þegar þingið hefur samþykkt málið vona ég að þetta taki ekki langan tíma í meðförum ESA í kjölfarið á því. En formlega séð fer þetta til ESA sem samþykkt frá Alþingi þegar málinu er lokið.