138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[21:27]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja: Loksins, loksins! Loksins kemur eitthvað fram frá ríkisstjórninni sem getur skipt máli varðandi atvinnuuppbyggingu, ef allt gengur upp. Þann 3. júní var rætt hér um orkufrekan iðnað. Þá talaði hæstv. iðnaðarráðherra um fjölmörg verkefni á borðinu hjá okkur og var að tala um ríkisstjórnina. Mörg hafa verið nefnd í fjölmiðlum, sagði hún m.a. Síðan sagði hæstv. ráðherra, frú forseti: „Það er heilmikið að gerast hjá ríkisstjórninni í atvinnumálum. Á það skal bent að aðgerðirnar eru bæði stórar og smáar.“

Þann 11. júní er þingfundur og rætt var um atvinnumál og atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar. Þá er hér mikil upptalning á málefnum sem sögð eru í gangi og alveg við það að detta inn. Í dag er kominn 15. eða 16. desember, ég verð að viðurkenna að þeir renna aðeins saman fyrir mér dagarnir núna. En, frú forseti, það er kominn tími til að einhverjar vísbendingar komi frá ríkisstjórninni um atvinnuuppbyggingu og uppbyggingu í iðnaði, nýtingu auðlinda og fleira í þeim dúr. Ég sakna þess að eitthvað í þessa veruna skuli ekki hafa komið fram miklu fyrr í staðinn fyrir að hér sé endalaust talað um áætlanir, nefndir og hitt og þetta.

Frú forseti. Þó að ég hafi þessi orð uppi, um allt of mikinn seinagang í atvinnuuppbyggingu, þá fagna ég því að hæstv. ráðherra leggi fram frumvarp um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um það sem kemur fram í frumvarpinu að þetta getur verið vendipunktur varðandi uppbyggingu á hátækniiðnaði á Íslandi. Það er engin spurning.

Ég ætla að hrósa þeim sem unnu þennan samning fyrir að leggja hann fram svo ítarlegan sem hann er. Ég vil þó taka það fram að ég hef ekki náð að kynna mér hann til hlítar eða fara ofan í einstaka hluti hans en mun að sjálfsögðu gera það og taka afstöðu til hans sem slíks þegar að því kemur. En það eru ákveðin tímamót að þetta mál skuli komið inn og ég vona svo sannarlega að sú ríkisstjórn sem nú situr láti ekki staðar numið, leggist ekki í dvala aftur og láti þetta duga, heldur komi með fleiri slík mál. Það eru mörg tækifæri á Íslandi. Við verðum að nýta þær auðlindir sem við höfum til að skapa atvinnu og erlenda fjárfestingu m.a. og þetta er klárlega skref í þá átt.

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt að vanda til verka þegar samningur af þessu tagi er gerður og ég efast ekki um að hér sé búið að leggja mikið í vinnu og eins og ég sagði áðan vil ég hrósa þeim sem hafa gert það. Við þurfum að fara yfir samninginn og að sjálfsögðu hlýtur iðnaðarnefnd að fá hann til umfjöllunar. En ég ítreka: Loksins er eitthvað að gerast og ég vona að þetta sé bara vísbending.