138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[21:34]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað snýr þetta að því að þarna eru kraftmiklir einstaklingar á ferð, en það er einfaldlega þannig að þessi ríkisstjórn, minnihlutastjórnin þar á undan og ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks lögðu mikla áherslu á stoðumhverfi þessara fyrirtækja. Það var gert af forvera mínum í iðnaðarráðuneytinu, Össuri Skarphéðinssyni. Þar var grunnurinn að þessu lagður.

Nú hefur formaður Samtaka sprotafyrirtækja sagt að hér sé að verða til eitt besta umhverfi fyrir slík fyrirtæki í heiminum. Í þeim frumvörpum sem liggja fyrir þinginu og verða vonandi kláruð nú fyrir áramót leggjum við okkur enn fram um það að búa til gott umhverfi fyrir sprota- og nýsköpunarfyrirtæki, t.d. með frumvarpi um endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði og frumvarpi um ívilnanir vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum.

Virðulegi forseti. Umhverfið er öflugt og stjórnvöld hafa svo sannarlega komið að því. Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur verið að lyfta grettistaki og hv. þingmaður má ekki gera lítið úr því starfi sem á sér þar stað og öllum þeim fyrirtækjum sem eru að verða til innan frumkvöðlasetra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Að mínu mati er þeim krónum vel varið sem settar eru t.d. í þá stofnun og það sprotaumhverfi og stoðkerfi atvinnulífsins sem við fjöllum um þessa dagana í fjárlagafrumvarpinu, og þær skila sér margfalt til baka í öflugum fyrirtækjum, eins og ég hef nefnt.