138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[21:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að frábiðja mér það að ég sé að gera lítið úr starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar eða sprotasetranna. Ég hef ekki einu sinni minnst á þessa ágætu stofnun, sem ég ber mikla virðingu fyrir og hef átt gríðarlega skemmtilegt og gott samstarf við sem sveitarstjórnarmaður. Þannig ég held að hæstv. ráðherranum hafi orðið fótaskortur á tungunni með þetta.

Ég fagna að sjálfsögðu því nýsköpunarfrumvarpi sem hér er. En eins og það lítur út í dag er það gallað, það þarf að laga það og ég vona að við sammælumst um að breyta frumvarpinu þannig að það geti gagnast fleirum. En ég tek ofan fyrir þeim frumkvöðlum sem hæstv. ráðherra vitnar hér til í nýsköpunar- og sprotageiranum, hvort sem það er á sviði umhverfistækni, tölvuleikja eða annars. Þetta eru stórglæsileg framtíðarverkefni sem unnið er að og auðvitað styðjum við þau. En ég ítreka það sem ég sagði áðan, frú forseti, að ég sakna þess að ríkisstjórnin springi ekki út líkt og þessi ágætu félög í atvinnusköpun sinni.