138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[21:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að hæstv. forseti og hv. ræðumaður fyrirgefi mér að ég skýt mér hér inn með andsvar til að lýsa ánægju minni með þetta mál. Ég vil líka segja eins og hv. þingmaður sem talaði hér áðan, ég er alveg sammála henni um það, að þeir á Suðurnesjum hafa staðið sig afspyrnuvel í að nýta margvísleg tækifæri til þess að skapa atvinnu á svæðinu. Þar ríkir mesta atvinnuleysi á landinu og það er mikilvægt að ríkisvaldið og aðrir og einkaframtakið geri allt sem hægt er fyrir sveitarfélögin til þess að búa í haginn fyrir ný störf. Ég átti sjálfur ákaflega ánægjulegt samstarf við bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ þegar ég gegndi starfi iðnaðarráðherra, hvort heldur er laut að orkumálum, gagnaversmálum eða nýsköpunarmálum og ýmsu öðru. Það hefur glatt mig. Ég hef líka átt mjög gott samstarf við þá ágætu menn sem stýra bænum þegar ég var utanríkisráðherra. Ég tók t.d. þátt í því ásamt þeim að greiða götu þeirra til þess að fá hingað 150 störf sem tengdust nýju fyrirtæki á sviði flugmála. Ég dreg ekkert úr því að bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ lögðu sig virkilega fram um að reyna að greiða götu Verne gagnaversins.

Ég vil samt sem áður nota þetta tækifæri til þess að segja að menn skulu ekki gleyma hlut Fjárfestingarstofu í þeim málum sem lúta að gagnaverum á Íslandi. Fjárfestingarstofa stóð sig afspyrnuvel fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í því að kynna Ísland sem mögulegt land fyrir gagnaver og gaf út merka skýrslu þar sem tækifærum hér á landi var lýst. Mér finnst líka rétt í þessari umræðu að draga fram hlut þeirra sem frumherja og frumkvöðla á þessu sviði.