138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[22:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki hafði ég hugmynd um að ég væri í raun að eiga orðastað við gamlan starfsmann úr Fjárfestingarstofu, Invest in Iceland. En gott er að heyra af þeim tengslum. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það að margvísleg tækifæri felast í þessum frumkvöðli á sviði gagnavera hér á Íslandi. Ég tel að í kjölfar Verne muni mörg fleiri slík koma á næsta áratug. Ég er einnig algjörlega sammála hv. þingmanni um þau tækifæri sem Suðurnesjamenn eiga. Ég er viss um að á næstu árum mun þeim takast að nýta þau með þeim hætti sem hv. þingmaður óskaði og ég tek undir þær óskir. Þá mundu 1.600 manns á Suðurnesjum ekki vera án starfa.

Ég held satt að segja að Suðurnesin gætu á næstu tveimur áratugum orðið eitthvert mesta vaxtarsvæði á Íslandi. Þau búa yfir svo margvíslegum tækifærum. Í fyrsta lagi nefni ég jarðorkuna en Suðurnesjamenn eru algjörir frumkvöðlar á því sviði og búa yfir einhverjum mesta snillingi á því sviði, Albert Albertssyni, fyrrverandi hitaveitustjóra, sem er einfaldlega náma hugmynda, reynslu og þekkingar. Ég tel einnig að flugþjónusta og flugrekstur eigi gríðarlega möguleika á Suðurnesjum. Ég tel að þegar heimurinn réttir úr kútnum muni ferðamennska aftur aukast um heim allan — sem betur fer hefur hún ekki minnkað til nokkurra muna hér á Íslandi enn þá eins og jafnan fylgir þó efnahagslægðum á heimsvísu — og þá telja menn að umsvifin á Keflavíkurflugvelli muni stóraukast. Þá má heldur ekki gleyma því að í tengslum við jarðorkuna og frumkvæði Suðurnesjamanna hefur auðvitað skapast margvíslegt nýsköpunarstarf. Keilir er dæmi um það. Ég er einn af þeim sem hafa alltaf stutt Keili og vilja styðja Keili. Það er algjörlega frábært að sjá hvernig bæjarstjórinn í Reykjanesbæ og Hjálmar Árnason, fyrrverandi kollegi okkar, hafa m.a. rutt brautina fyrir margvíslegum (Forseti hringir.) nýjum hugmyndum.