138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[22:05]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og uppbyggilega. Ég fagna því líka að fram komi mál sem við getum verið nokkuð sammála um, alla vega um markmið þeirra.

Hv. þingmaður hélt hér tölu árið 2007, að það hefði nú verið margt ágætt þá, og um jómfrúrræðu sína þar sem hún hefði verið að fagna því að Alcan hefði verið að fara inn í hið almenna skattumhverfi á Íslandi. Þá er kannski best að rifja það aðeins upp hvernig sá samningur var og hvers vegna Alcan vildi það. Það var ósköp einfaldlega þannig að Alcan var þá með fjárfestingarsamning frá árinu 1966 og ætla má að hlutirnir hafi breyst töluvert til ársins 2007. Þá voru þeir með svokallað „framleiðslugjald“ í staðinn fyrir tekjuskatt sem jafngilti nærri því tæplega 40% tekjuskatti. Það skal því engan undra þó að Alcan hafi á þeim tíma viljað komast út úr þeim samningi.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hélt áfram með þá línu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal lagði áðan, að við ættum ekki að vera með ívilnandi kerfi fyrir nýfjárfestingar hér á landi eða erlendar fjárfestingar. Í þessu er ég algjörlega ósammála þessum tveimur talsmönnum Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu, að ekki þurfi að laða hingað erlenda fjárfestingu með sérstökum aðgerðum og ekki eigi að þurfa þess. Það er einfaldlega þannig að sama hversu gott tekjuskattskerfi við erum með, hversu lága tekjuskattsprósentu við erum með, hefur það ekkert að segja um þær ívilnanir sem við þurfum að bjóða fyrirtækjum meðan þau eru að byggja sig hér upp og meðan þau eru ekki enn farin að greiða tekjuskatt. Það er um það sem þetta ívilnandi kerfi snýst. Þar erum við á eftir nágrannaríkjum okkar, á eftir ríkjum sem við erum að keppa við (Forseti hringir.) um nýfjárfestingar. Þetta eigum við að bjóða upp á. (Forseti hringir.) Þarna er ég alfarið ósammála talsmönnum Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) í þessari umræðu.