138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[22:10]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki að ástæðulausu að ríki í kringum okkur, t.d. Kanada, Svíþjóð, Finnland, Skotland og Írland, eru með ákveðnar ívilnanir til þess að laða nýfjárfestingu til landsins. Það er einfaldlega vegna þess að lönd þurfa að grípa til ráðstafana í harðri samkeppni um öflug fyrirtæki sem eru að leita sér að framtíðarstaðsetningu. Við þurfum að grípa til þeirra meðala sem til þarf ef við viljum ná þeim hingað, með þeim gjaldeyri sem þeim fylgir. Hann skiptir okkur gríðarlega miklu máli og við þurfum þessar gjaldeyristekjur og við þurfum þennan gjaldeyri hingað inn í landið.

Þarna erum við líka að tala um það að fyrirtæki sem eru staðsett hér á landi eiga að njóta sömu skatta og skattprósentna og önnur fyrirtæki sem hingað koma, óháð því hvort eignarhald er erlent eða innlent. Hér er hins vegar um að ræða ívilnanir sem snúa að gjöldum á meðan fyrirtæki eru að byggja sig upp hér á landi. Um það snúast þessar ívilnanir.

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður viti það jafn vel og ég, og þetta séu kannski ákveðnir útúrsnúningar hér, að við erum með sérstök kerfi hér innan lands fyrir ákveðin fyrirtæki. Við erum t.d. með endurgreiðslur á rannsóknar- og þróunarkostnaði í sprota- og hátæknifyrirtækjum á sama hátt og við erum með ívilnanir vegna fjárfestinga í slíkum fyrirtækjum og við erum enn þá með lága tekjuskattsprósentu.

Ég er þeirrar skoðunar, og um það erum við augljóslega ósammála, ég og hv. þingmaður, að beita eigi ívilnandi kerfi eins og nágrannaríkin gera til að ná fjárfestingunni hingað til landsins, sem ella færi annað, af því að við stöndum (Forseti hringir.) ekki á pari við önnur ríki hvað það varðar.