138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[22:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þeir sem grannt horfa sjá að undanfarið hálft eða eitt ár hafa verið að koma vissar góðar fréttir. Tveir bankar voru t.d. einkavæddir við ekki mikla kynningu og þeir voru ekki einkavæddir á þann hátt að það væri einhvern veginn boðið út heldur gerðist það sjálfvirkt að kröfuhafarnir tóku þá yfir. Ég tel það mjög jákvæðar fréttir, verulega jákvæðar fréttir, því að allt í einu missti hið opinbera, stjórnvöld og pólitíkin, tök á fjölda íslenskra fyrirtækja sem bankarnir eiga og hinir nýju eigendur munu væntanlega losa sig við þær eignir þegar fram líða stundir án þess að í því séu einhver pólitísk áhrif. Síðan hefur ýmislegt fleira gerst. En þetta er sem sé eitt dæmi um jákvæða frétt og ég er mjög ánægður með hana.

Eitt af því brýnasta á Íslandi núna, frú forseti, er að fjölga störfum því að við búum við atvinnuleysi sem er allt of hátt hjá okkur Íslendingum og ég held að þjóðin sætti sig ekki við slíkt atvinnuleysi. Atvinnuleysi þýðir það að starfskraftar eru ekki nýttir, atvinnuleysi ýtir líka undir brottflutning fólks, svo maður tali ekki um auknar skattálögur og annað slíkt sem ýtir því þá af stað ef það skyldi vera eitthvað hægt í förum.

Reykjanes hefur orðið fyrir tvöföldu áfalli, fyrst þegar herinn fór, og hafði svo sem ekki verið neitt mjög blómlegt atvinnulíf þar áður, og þegar hrunið átti sér stað varð það fyrir áfalli eins og aðrar byggðir landsins. Það varð sem sagt fyrir tvöföldu áfalli og mjög brýnt er að taka á atvinnumálum þar og því er umrædd framkvæmd mjög jákvæð.

Nokkrar umræður hafa spunnist milli mín og hæstv. iðnaðarráðherra um hugmyndir um umhverfi fyrirtækja. Mér fannst hæstv. ráðherra bregðast dálítið hastarlega við svona eins og — ég veit ekki hvað ég á að segja, ég ætla ekki að segja stunginn grís — en einhvern veginn brást ráðherra mjög hastarlega við. Ég held að það sé á vissan hátt af misskilningi en kannski líka af því að í rauninni er hæstv. ríkisstjórn að leggja mjög miklar álögur á innlent atvinnulíf. Það er verið að skattleggja margt, verið er að ráðast sérstaklega á áhættufé. Ef maður skoðar frumvörpin er verið að ráðast sérstaklega á áhættufé á allan máta. Söluhagnaður, arður og allt skal skattlagt með 18% í staðinn fyrir 15%, hagnaður fyrirtækja er hækkaður o.s.frv. Vextir eru skattlagðir og ríkisvaldið er alls staðar að ráðast á sparnað og áhættufé. Á sama tíma vill það samt að áhættuféð sé í atvinnulífinu og skapi störf. Það er því mjög mikil mótsögn, geysimikil mótsögn í ríkisstjórninni sjálfri.

Svo kemur hæstv. iðnaðarráðherra hér og segir að Ísland verði að vera samkeppnisfært um erlenda fjárfestingu, þá peninga sem koma erlendis frá, við Kanada og önnur ríki. Ráðherra vill stefna að því að gera innlendu atvinnulífi erfitt fyrir með innlendum eigendum en gera jafnframt erlendum aðilum auðveldara fyrir. Ráðherra vill vera í samkeppni við t.d. Kanadamenn og ef hér væru frjálsir fjármagnsflutningar mundi þetta leiða til þess að Íslendingar mundu fjárfesta í Kanada og Kanadamenn á Íslandi. Ég veit ekki til hvers, en það er sennilega til þess að fá inn erlenda fjárfestingu.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem því miður er ekki viðstaddur hérna, hefur varað mjög eindregið við skattasamkeppni milli landa en það er einmitt það sem þetta frumvarp er angi af, þ.e. skattasamkeppni milli landa. Við erum að bjóða erlendu fyrirtæki sérstök skattakjör hér á landi.

Það má vel vera að með svona sérstöku frumvarpi og með því að koma með rammalöggjöf og skrifa undir samning við eitthvert fyrirtæki í Eyjafirði sé allt saman gott og gilt og menn eigi að þakka ráðherranum fyrir það. Það er nefnilega akkúrat málið, það á að þakka ráðherranum fyrir það. Af hverju skyldu menn þurfa að þakka ráðherranum fyrir hluti sem ættu að vera sjálfsagðir? Er það vegna þess að ráðherrann vill fá þakkir, vill geta sagt það og auglýst út um allt að hún hafi komið þessu og hinu fyrirtækinu á koppinn? Það skyldi nú ekki vera að það sé mótífasjónin á bak við þetta?

Nú getum við sem sagt þakkað ráðherranum fyrir það að koma með gagnaver í Reykjanesbæ en auðvitað eru það aðilarnir sem eru að reisa gagnaverið. Ef kunna á einhverjum þakkir fyrir þá eru það þeir. En alveg sérstaklega þarf að þakka þeim sem bjuggu til það umhverfi að fyrirtæki geti starfað á Íslandi, sem þýðir ljósleiðarar og menntun þjóðarinnar til langtíma, það þýðir almennt annað umhverfi fyrirtækja, annað en þessi sérákvæði, o.s.frv. Það vill svo til að sumir hafa sagt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í ríkisstjórn í 18 ár og það skyldi nú ekki vera að eitthvað af þessu sé honum að þakka? En þá eru það allt í einu einhverjir aðrir flokkar sem voru með honum.

Það er dálítið merkilegt að gagnaver er mjög skemmtilegt fyrirbæri. Menn nefna að kalt loft þurfi og það er rétt, þ.e. sjálfvirka kælingu, og það eru líka vindar, loftið hreyfist hratt og auðvelt er að koma orkunni út í það og mætti hugsanlega til framtíðar — ég hugsa að einhver snillingurinn finni upp á því að búa til varmadælu þarna — nota hitaskiptin til að framleiða rafmagn sem svo aftur getur snúið hverflunum. Þetta getur orðið mjög skemmtilegt dæmi fyrir eðlisfræðinga og snillinga eins og umræddan snilling hjá Hitaveitu Suðurnesja sem rætt var um áðan, Albert Albertsson. Hann finnur örugglega upp einhverja leið til að nýta þessi orkuskipti til að búa til raforku.

En það er annað, svona gagnaver þarf líka land, ódýrt land, og nóg er af því á Íslandi. Það er því margt sem mælir með því að þetta sé staðsett á Íslandi fyrir utan það að hér er hrein orka og tiltölulega ódýr enn þá. Ég ætla að vona að hún verði ekki lengi ódýr því að við höfum því miður ekki getað selt orkuna á háu verði hingað til í þau 30–40 ár sem hún hefur verið seld til útlanda. Hún hefur yfirleitt verið á frekar lágu verði en þegar eftirspurnin vex getur vel verið að verðið hækki.

Á þessu augnabliki er hæstv. umhverfisráðherra í Kaupmannahöfn að ræða um framtíð mannkynsins og hlýnun jarðar og ég geri ráð fyrir að ráðherra ræði um kolefniskvóta og slíkt. Ég ætla að vona að í þeim samningi sem gerður yrði við fyrirtækið um kaup á raforku sé gert ráð fyrir því að menn greiði fyrir kolefniskvóta sem mun gera það að verkum að innlend hrein orka verður miklu verðmeiri en verið hefur. Kolefniskvótarnir munu færa Íslendingum mjög mikla auðlind á næstu árum. Og það er kannski enn ein fréttin sem ég get upplýst hæstv. forseta um, að vegna þess að íslensk orka er hrein muni hún væntanlega hækka mikið í verði, sem er mjög gott. Ég vona að samningarnir sem gerðir hafa verið taki mið af því þannig að menn komi ekki allt í einu og uppgötvi það að fyrirtæki fái ódýra orku og þurfi ekki að greiða kolefniskvóta fyrir þá hreinu orku.

Hér hefur verið spurt og ég hef margoft spurt hæstv. umhverfisráðherra — og það kemur þessu máli við, frú forseti, vegna þess að við erum að fjalla um sölu á hreinni íslenskri orku — hvað hún ætli að gera fyrir hönd Íslands í Kaupmannahöfn, hvort hún ætli að bjóða það að Íslendingar muni virkja eins og þeir mögulega geta án þess að ganga nærri náttúrunni, því það er heilmikið óvirkjað á Íslandi, og hvort menn muni hverfa frá þessu íslenska þaki sem hefur stöðvað fjárfestingar og virkjanir á Íslandi, merkilegt nokk, þó að þetta sé hreinasta orka í heimi og mannkyninu til hagsbóta að virkjað sé sem mest á Íslandi. Þetta tengist allt saman en ég er á móti því, frú forseti, að erlend fjárfesting fái sérstaka ívilnun. Ég vildi gjarnan, frú forseti, að íslensk fyrirtæki fengju þá ívilnun sem um ræðir í frumvarpinu í 4. gr., um skattlagningu. Ég vildi gjarnan að íslensk fyrirtæki mættu gera slíka samninga við ríkisvaldið, þ.e. að vera tryggð fyrir skattahækkunum til jafnvel áratuga og það sé þá jafnræði milli þeirra og erlendra fjárfestinga, því að ég er á móti því að einhver sérkjör gildi um erlenda fjárfestingu þó að ég fallist á rök hæstv. iðnaðarráðherra að menn þurfi kannski að lokka til sín erlenda fjárfestingu en þá eiga þeir að gera það með öðrum hætti en með skattaívilnunum.