138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[22:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, en þau lög eru nr. 40/2007.

Í frumvarpinu, sem er 308. mál þessa þings, er lagt til að ákvæði um yfirlækna, yfirhjúkrunarfræðinga og deildarstjóra hjúkrunar verði felld brott úr lögum um heilbrigðisþjónustu, með síðari breytingum.

Annars vegar, frú forseti, er lagt til að ákvæði 2. mgr. 10. gr., um faglega ábyrgð yfirlækna sérgreina og sérdeilda á læknisþjónustu, og ákvæði 3. mgr. 10. gr., um faglega ábyrgð deildarstjóra hjúkrunar á hjúkrunarþjónustu, falli brott. Hins vegar er lagt til að ákvæði 2. mgr. 17. gr., um yfirlækna og yfirhjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðvum, verði fellt niður.

Ákvæði 1. mgr. 10. gr. laganna, um að á heilbrigðisstofnunum skuli starfa framkvæmdastjóri lækninga og framkvæmdastjóri hjúkrunar sem bera faglega ábyrgð gagnvart forstjóra, standa hins vegar óbreytt. Jafnframt er gert ráð fyrir að ákvæði 4. mgr. 10. gr. laganna verði óbreytt, en samkvæmt því bera fagstjórnendur faglega ábyrgð á þeirri þjónustu sem undir þá heyrir í samræmi við stöðu þeirra í skipuriti stofnunarinnar. Þá er ítarleg ákvæði um gæði heilbrigðisþjónustu, m.a. um faglegar kröfur og eftirlit með faglegum rekstri heilbrigðisþjónustu, að finna í VI. kafla laganna.

Frú forseti. Það verður ekki séð að nauðsyn beri til að kveða nánar á um innra skipulag heilbrigðisstofnana í lögum enda ber forstjóra að gera tillögu að skipuriti í samráði við framkvæmdastjórn og leggja hana fyrir ráðherra til staðfestingar. Tilgangur breytinganna sem hér er mælt fyrir er einkum að auka svigrúm til að endurskipuleggja heilbrigðisstofnanir með því að gera kleift að sameina eða breyta stöðum stjórnenda þar sem það er talið auka skilvirkni og draga úr kostnaði.

Frumvarpinu er þannig ætlað að stuðla að aukinni hagræðingu og sveigjanleika í starfsemi heilbrigðisstofnana og verði það að lögum mun það gefa heilbrigðisstofnunum tækifæri til að endurskoða innra skipulag með það í huga að stjórnendur, þar með taldir yfirlæknar, yfirhjúkrunarfræðingar og deildarstjórar hjúkrunar, séu ekki fleiri en nauðsynlegt er vegna starfseminnar.

Í mati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis á kostnaðaráhrifum frumvarpsins kemur fram að verði frumvarpið óbreytt að lögum verði ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð heldur geri það þessum stofnunum kleift að ná fram áformum um hagræðingu í rekstri sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010.

Frú forseti. Ég legg til að hv. heilbrigðisnefnd fái þetta mál til umfjöllunar þar sem breytingunum er ætlað að auka svigrúm heilbrigðisstofnana til þess að ná fram hagræðingu í rekstri en mikil krafa er gerð um það í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010. Er nokkuð mikilvægt að þetta frumvarp hljóti brautargengi hið allra fyrsta.