138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[22:50]
Horfa

Frsm. heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni góð orð í minn garð og nefndarinnar. Við hlustuðum eftir ábendingum og athugasemdum frá gestum og kröfum þeirra um að komið yrði á betra afgreiðslukerfi lyfja en er í dag. Kerfi sem yrði réttlátara og gagnsærra heldur en það sem er í dag. Þegar afgreiðslukerfi lyfja er með þeim hætti að munur er á verði eftir því hvar fólk er á landinu og fer meira að segja eftir kyni, þá sjá allir að því kerfi getum við ekki haldið við.

Ég kom bara upp í stutt andsvar til að fyrirbyggja þann misskilning, ef ég hef talað óskýrt, að ég væri að leggja hæstv. ráðherra það í munn að ráðherra mundi halda áfram með það kerfi sem var verið að vinna. Ég veit ekki nákvæmlega hvaða útfærslur hæstv. ráðherra ætlar að fara í, nema að gera þetta gagnsærra og réttlátara en er í dag, en gagnagrunnurinn sem var unninn fyrir þá nefnd sem hefur látið af störfum mun auðvitað nýtast til þeirra verka. Svo það sé alveg ljóst þá hvetur nefndin til þess að þessi tvö ár verði notuð vel til að koma á nýju kerfi og ég vona að við getum sameinast um það og myndað breiðfylkingu um þá vinnu.