138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[23:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér leiðist þegar snúið er út úr fyrir mér. Ég veit alveg að þetta er flókið. Ég veit alveg að þeir sem versla með lyf nýta sér reglur í Evrópusambandinu sem gilda öryggisins vegna. Síðan var sett upp þessi Evrópuskráning til að reyna að losa um þá miklu lokun markaða sem framleiðendur lyfjanna höfðu sett. Ég segi: Það er hægt að komast í gegnum þetta en það er erfitt. (GÞÞ: Þú þarft … íslensku …) Íslensku pakkningarnar eru einn af þessum útúrsnúningum til að bægja athyglinni frá því sem skiptir máli vegna þess að mjög mörg lyf, og ég held jafnvel flest, sem skráð eru Evrópumerkingu eru prentuð með 13 tungumál á seðlinum.

Þetta er ekki rétt og þarna eiga í hlut lyfsalarnir, þá er ég ekki að tala um apótekin heldur hina stóru, miklu framleiðendur sem notfæra sér það að geta farið í markaðsaðgreiningu. Mér finnst svolítið kostulegt og kúnstugt að ég kratinn þurfi að kenna sjálfstæðismanninum eitthvað um hvernig á að haga sér í svona kerfi.