138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[23:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér mjög lítið atriði, það er eitt ákvæði sem á að taka gildi 1. janúar 2012 og afskaplega erfitt að sjá í gegnum það hvað þetta eiginlega þýðir. Þetta þýðir að meiningin var að taka hérna upp nýtt greiðsluþátttökukerfi, ekki bara gagnvart lyfjum, heldur gagnvart öllum kostnaði sem almenningur verður fyrir í heilbrigðiskerfinu. Almenningur greiðir um það bil 17% af kostnaði í heilbrigðiskerfinu og meiningin var að taka upp kerfi þar sem litið er á allt kerfið frá sjónarhorni notandans og koma í veg fyrir að hver og einn greiddi of mikið en þó þannig að 17% héldust.

Ég var formaður nefndar sem tók þetta verkefni að sér á sínum tíma. Ég ætla ekkert að vera langorður um þetta, en nefndin gerði miklar kannanir á því hvað fólk greiddi. Sumir greiða mörg hundruð þúsund á ári, 250.000 komu í ljós hjá einum o.s.frv. Fólk er mjög illa varið fyrir þessum kostnaði með afskaplega ógagnsæjum reglum sem koma gjörsamlega í veg fyrir alla samkeppni vegna þess að þegar maður fer inn í verslun og veit ekki hvað maður kemur til með að borga er samkeppnin núll eða mjög lítil. Þetta er kannski aðalmálið.

Þessi nefnd sem allir stjórnmálaflokkar áttu sæti í og vann afskaplega ötullega, að ég held, var nánast komin að niðurstöðu. Hún var eiginlega komin að niðurstöðu, vantaði kannski viku eða 10 daga upp á en þá féll ríkisstjórnin og þá var það starf fyrir bí. Auðvitað eru samt allar hugmyndir og öll gögn og allt til og það var mikil eftirspurn eftir nýju kerfi í öllu heila heilbrigðiskerfinu, það er ekki bara í lyfjunum heldur alls staðar. Allir heilbrigðisstarfsmenn sem rætt var við kvörtuðu undan því að kerfið væri ósanngjarnt, ógagnsætt og óskiljanlegt. Ég er nærri viss um að nýr heilbrigðisráðherra er til í að taka upp nýtt kerfi og ætti að gera það. Þetta breytir ekki útgjöldum ríkisins en kemur í veg fyrir ákaflega mikið óréttlæti í kerfinu sem er til staðar í dag. Ég er alveg tilbúinn í það, hvort sem það er á vegum nefndarinnar sjálfrar, sem að sjálfsögðu getur haft frumkvæði, þetta er reyndar kannski meira framkvæmdamál og ætti í rauninni að vera undir ráðuneytinu. Ég vona að hæstv. heilbrigðisráðherra heyri í okkur hérna og ég er alveg til í að starfa áfram að þessum hugmyndum til að leysa þetta.

Þetta hefur ekkert að gera með pólitík, ég get ekki ímyndað mér það. Ég get ekki séð að þetta sé spurningin um hægri eða vinstri stefnu í pólitík, þetta er bara spurning um að koma með skynsamlegt og einfalt og gagnsætt kerfi í greiðsluþátttöku þegar fólk greiðir í kerfinu. Svo geta menn rifist um það hvort kerfið eigi að vera ókeypis eða hvort menn eigi að borga meira eða minna, þar kemur pólitíkin inn í. En ef menn ganga út frá því að almenningur borgi 17% óbreytt er spurningin bara hvernig við látum hina ýmsu hópa greiða, t.d. ef maður sem fer í dag til augnlæknis á þriggja ára fresti og notar kerfið að öðru leyti ekki neitt fær niðurgreiðslu engu að síður.