138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

lyfjalög.

321. mál
[23:19]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að hann gerði vel í þessum málum. Ég hef ekki sagt að hann hafi ekki gert það. Ég hef hins vegar sagt að það sé hægt að gera betur og ég hef sagt að það sé hægt að vinna innan þessa evrópska regluverks. Ég veit það alveg mjög vel, og ég hef sagt það alveg frá því að ég kom hingað fyrst í kvöld, að þessar öryggisreglur í lyfjunum á Evrópska efnahagssvæðinu eru mjög erfiðar en það er hægt að vinna innan þeirra. Það er hægt að túlka þær á ýmsan hátt og það er hægt að framkvæma þær á ýmsan hátt. Fyrst þingmaðurinn hv. segir að ég sé hrædd við að heyra íslensku er best að hann heyri íslensku líka. Ég held því fram að þær séu þröngt framkvæmdar hér og að það kosti okkur helling í lyfjaverði og ég ætla að halda því fram áfram.