138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir þarfa ábendingu. Það er oft þannig að verkaskiptingin í þinginu milli þingnefnda er óljós og ég leit svo á að þetta væri á hendi fjárlaganefndar að ræða og gefa heimild fyrir einkavæðingu (Gripið fram í.) Íslandsbanka og Arion banka. En ég mun náttúrlega ræða það við formann fjárlaganefndar um hvernig er eðlilegt að skoða þennan gjörning inni á þinginu.

Ég vil jafnframt geta þess að ástandið í þessari einkavæðingu er náttúrlega fyrst og fremst efnahagsleg nauðsyn. Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom til aðstoðar í nóvember haustið 2008 var gert ráð fyrir að endurreisn bankakerfisins mundi kosta 385 milljarða en þessi gjörningur, að láta kröfuhafana taka yfir tvo af þremur viðskiptabönkunum, þýðir að endurreisnin mun ekki kosta nema rúma 200 milljarða. Ríkið sparar því töluverða peninga í vaxtakostnað en vaxtakostnaður ríkisins á þessu ári stefnir í að verða 100 milljarðar.

Frú forseti. Ég mun, eins og ég sagði í upphafi máls míns, skoða og ræða í samráði við fjárlaganefnd hvernig best er að taka á þessum gjörningi sem nú hefur verið framkvæmdur varðandi einkavæðingu Arion banka og Íslandsbanka.