138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að ræða dagskrá þingsins og störf þess. Störf þingsins er málefni sem ég hef oft rætt um úr þessum ræðustól og ekki hefur það mál farið batnandi. Við höfum fengið í hendur málaskrá ríkisstjórnarinnar þar sem eru mál sem hún telur brýnt að afgreiða áður en þingið fer í frí. Ég held að það séu eitthvað á bilinu 60–100 mál sem þarf að afgreiða. Þetta er alveg hrikalegur listi og þar er aragrúi af alls konar málum sem ég átta mig ekki á hvers vegna eru sett á listann. Það er m.a. vegna þessa sem störf þingsins eru í uppnámi flesta daga sem þingið starfar. Það er verið að reyna að keyra í gegn alls konar mál á lágmarkstíma. Það þarf, frú forseti, að setja niður viðunandi dagskrá fyrir þingið, það þarf að gera það í samkomulagi við minni hlutann og það þarf að gera það í sátt í þinginu. Það er engin hemja hvernig vaðið er fram og aftur um þingið með dagskrá sem augljóslega mun aldrei ganga upp. Við sjáum að í dag á að vera búið að skila öllum álitum varðandi Icesave-málið og það er ekki einu sinni byrjað á því vegna þess að einhverjum datt í hug að setja tímamörk við 16. desember, sem engin þörf er á. Það liggur ekkert á að afgreiða þetta mál.

Við höfum lent í því, eins og komið hefur fram í morgun, að bankarnir voru seldir í heimildarleysi af því að það lá svo mikið á. Þeir voru líka seldir fólki sem enginn veit hvert er. Meira að segja Sjálfstæðisflokknum tókst ekki einu sinni að gera það þó að hann hafi ýmislegt á samviskunni. Þetta er ótrúlegur vinnustaður, frú forseti, og það er ekki landi og þjóð til sóma að þingið starfi með þessum hætti. Ég skora á þingmenn, forseta þingsins og þingflokksformenn að koma sér saman um að reyna að starfa af einhverju viti.