138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

ummæli sem féllu í umræðum um störf þingsins.

[11:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég er að velta fyrir mér hvernig best sé fyrir okkur í þinginu að bregðast við því sem hér hefur komið upp. Hér hefur hæstv. utanríkisráðherra komið fram og af orðum hans má dæma að hann geri afskaplega lítið með þessar athugasemdir Ríkisendurskoðunar. Ég held að það sé spurning hvernig best sé fyrir okkur að taka á þessu máli. Ég held að fundir í fjárlaganefnd og viðskiptanefnd séu ekki nóg. Ég held að við þurfum að ræða þetta því að léttúð hæstv. utanríkisráðherra gagnvart málinu vakti athygli.

Nú kom líka fram hjá hæstv. utanríkisráðherra að hann virðist lítið kannast við að hafa verið í ríkisstjórn áður, bæði 2007–2009 og sömuleiðis 1991–1995. Ég tel enga ástæðu til þess, virðulegi forseti, að ræða það sérstaklega á vettvangi þingsins en varðandi léttúð hans gagnvart þessu alvarlega máli hef ég áhyggjur og ég tel að allir ábyrgir þingmenn hljóti að hafa þær þegar menn sjá hæstv. ráðherra bregðast við með þessum hætti.