138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

ummæli sem féllu í umræðum um störf þingsins.

[11:13]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Í tengslum við þá umræðu sem hér hefur átt sér stað vil ég lýsa því yfir að ég tel mjög mikilvægt og nauðsynlegt að vera með stofnun eins og Ríkisendurskoðun sem tekur á álitamálum eins og hún hefur gert og hér hefur verið vakin athygli á. Það er sjálfsagt og eðlilegt að gefa þinginu og einstökum þingnefndum ráðrúm til að fjalla um skýrslur Ríkisendurskoðunar. Vil ég sérstaklega benda á nýútkomna skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem fjallað er um hrun Seðlabankans og starfsemi hans á árinu 2008 sem er að sjálfsögðu sérstakt tilefni fyrir okkur til að taka fyrir á vettvangi Alþingis og einstakra þingnefnda eins og aðrar skýrslur sem Ríkisendurskoðun sendir frá sér.