138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

70. mál
[11:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil minna hv. þingmann á að Alþingi hefur löggjafarvald en ekki viðskiptaráðherra, það er Alþingi sem setur lög á Íslandi. Hér er reyndar verið að taka skref sem ég viðurkenni að er ágætisskref en það er ósköp lítið og ég hugsa að það geri ekkert til að byggja upp traust vegna þess að þær fréttir sem menn hafa fengið, hluthafar sem aðrir, af lánum stærstu bankanna og hlutafélaganna til eigenda sinna, raðeignarhald, krosseignarhald þar sem Exista átti í Kaupþingi og Kaupþing átti í Exista, sýna að stærstu hluthafarnir komast upp með það að hola fyrirtækin að innan á kostnað minni hluthafa. Minni hluthafarnir hafa tapað miklu, ég er reyndar að láta kanna það en ég hygg að um 70 þúsund hafi tapað að meðaltali þremur til fjórum milljónum króna á hlutabréfaeign í þessum fyrirtækjum vegna þess að stærstu eigendurnir lánuðu sjálfum sér, keyptu í sjálfum sér og holuðu fyrirtækin að innan. Ef menn taka ekki á þessum vanda er um tómt mál að tala að almenningur fjárfesti aftur í hlutabréfum á Íslandi og enginn markaður myndast á Íslandi þannig að ég skora á hv. formann nefndarinnar að taka á honum stóra sínum og láta nefndina nú eftir áramót semja hratt og vel lög og reglur sem koma í veg fyrir þetta því ég held að það verði að byggja upp traust almennings á hlutabréfamarkaði, því að án þess verður ekkert áhættufé í íslenskum fyrirtækjum og án þess skapast ekki ný störf.