138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

70. mál
[11:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Lilja Mósesdóttir erum sammála um að þetta frumvarp um fundarboð er lítil þúfa. Ég er ekki jafnsannfærður og hv. þingmaður um að þessi litla þúfa velti þungu hlassi. Ástæðan fyrir því að við erum á málinu og munum greiða atkvæði með því er sú að við teljum að þetta sé til bóta, það skipti ekki máli. Þetta snýst um það hvernig við nýtum þann dýrmæta tíma sem við höfum. Ég tel að við höfum ekki nýtt hann með skynsamlegum hætti, kannski sérstaklega í ljósi frétta gærdagsins og dagsins þar á undan um að Ríkisendurskoðun telji að ríkisstjórnin hafi ekki haft heimild til að ganga frá málum bankanna eins og raun ber vitni, en við höfum ekki enn farið yfir það í hv. viðskiptanefnd. Í stað þess vorum við að ganga frá frumvarpi um fundarboð. Það finnst mér vera skýrt dæmi um ranga forgangsröðun.

Tilfinning mín er sú að almenningur vilji fara að halda jól, ef alhæfa má um fólk, og sé orðinn frekar þreyttur. En ef við erum að tala um traust þá vitum við að það er alveg gríðarlegt vantraust hvað varðar það hvernig bankar höndla viðskiptavini sína. Ég ætla ekki að vitna í fréttir þar um en tel algert forgangsmál að viðskiptanefnd hafi forgöngu um þetta og ætla að ágætlega hafi verið tekið í það. Það stendur upp á okkur í stjórnarandstöðunni að skoða þau drög sem liggja fyrir. Ég hef litið svo á að þetta væri algert forgangsmál og ef við hefðum náð að vinna það fyrr þá hefði það haft mjög góð áhrif, en nú erum við komin á þann tímapunkt að ansi hætt er við að það drukkni í jólasálmum og auglýsingum.