138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[12:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að hv. þingmenn hefðu lært dálítið af reynslunni í gegnum Icesave að treysta ekki allt of mikið á tilskipanir Evrópusambandsins. Þær eru meingallaðar margar hverjar. — Herra forseti. Klukkan í borðinu er dálítið undarleg. (Gripið fram í.) Já. — Það kom í ljós í ræðu fjármálaráðherra Hollands í mars sl. að tilskipanir Evrópusambandsins varðandi innlánstryggingar væru meingallaðar, með mjög veigamiklum göllum, og því tel ég mjög varasamt ef það er stefnan að fara nákvæmlega að tilskipunum og ekkert nema það. Við þurfum að horfa miklu betur á tilskipanir Evrópusambandsins og reyna að sjá í þeim veilur, ég tel að veilan í þessu sé sú að eignarhaldið er ekki klárt. Með því að taka inn samstæðutengsl eru menn að segja að fyrirtæki sem eiga 20% hvert í öðru séu tengd en þau sem eiga 19,9% hvert í öðru séu ekki tengd. Hvað gera menn? Þá hafa menn eingöngu hlutafélög sem eru 19,9%. Þetta sá maður að var að gerast á markaði á Íslandi. Það voru alls staðar 19,9% og allir ótengdir. Ég held að það sé ekki mikil vörn í þessu fyrir hinn almenna hluthafa.

Varðandi ábyrgð endurskoðanda, hv. þingmaður kom ekki inn á það, væntanlega vegna tímaleysis, en mér finnst að auka þurfi ábyrgð þeirra sem gefa hluthafafundi og þar með hinum litla hluthafa upplýsingar, því að það var litli hluthafinn sem varð fyrir gífurlegu áfalli og þess vegna er kannski sérstaklega sárt fyrir þann aðila, fjármagnseiganda, að heyra það sagt út um allan bæ, og þá er kannski ágætt að vinstri menn heyrðu þetta, að fjármagnseigendur hefðu allt sitt á þurru, hluthafinn sem tapaði öllu sínu. Honum þykir sennilega sárt að heyra það að fjármagnseigendur hafi allt sitt á þurru því að hann var fjármagnseigandi og hann tapaði mest allra í hruninu og margir hluthafar töpuðu öllu sínu.