138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[12:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þetta síðasta atriði lýsi nákvæmlega því sem er vandinn í þessu máli. Ég er alveg sammála því að konur eiga ekki að víkja vegna jafnréttis alveg eins og ég er ósammála því að konum sé troðið inn einhvers staðar sökum jafnréttis. Hugarfarið sem við erum að reyna að sækjast eftir á að vera þannig að ég horfi á ykkur tvö og vil að þið komið bæði að rekstri míns fyrirtækis. (Gripið fram í: Það er bara ekki þannig.) Nei, það er ekki þannig og ég fullyrði að þessi lög og þessi grein sem hv. þingmaður er að berjast fyrir mun ekki laga þetta. Við verðum að laga þetta öðruvísi. Við verðum að koma því inn í hausinn á okkur sem hefur verið að takast og þetta er langhlaup. Eins og ég segi, ég er óþolinmóð að eðlisfari en ég veit og ég trúi því svo innilega í hjarta mínu að þetta sé ekki leiðin til að ná hinu fullkomna jafnrétti vegna þess að eins og við höfum séð í Noregi breytist hegðunarmunstur, stjórnarfundirnir eru haldnir fyrir formlegan stjórnarfund. Menn geta farið fram hjá svona ákvæðum en ef menn eru komnir með þannig fyrirkomulag að vera með stjórn sem sannarlega hefur verið kosin vegna þess að það er í allra þágu að hafa sem jöfnust kynjahlutföll arðseminnar vegna, fyrirtækisins vegna, stefnunnar vegna, þá erum við komin með hið fullkomna jafnrétti, ekki fyrr. Mér er alveg sama þó að það séu 20% konur í sumum tilfellum, 70% konur í öðrum tilfellum, þetta snýst ekki um að telja hausa í hverju tilfelli fyrir sig, (Forseti hringir.) þetta snýst um að við náum að breyta hugarfari.

Ég náði ekki að svara spurningum hv. þingmanns en ég geri það í síðara andsvari mínu.