138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[12:47]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt því ekki fram að það væri gagnslaust ef þú ætlar að fara í þessar hausatalningar. Það er fínt, þessar tölur segja allt um það. Ég benti á að það sem hefur gerst í Noregi er líka það, hv. þingmaður hlýtur að hafa lesið sig til um það, að gagnrýnt hefur verið að stjórnarfundirnir hafa færst annað, þ.e. þessi 36% stjórnarfundur er ekki sá sem tekur hinar raunverulegu ákvarðanir og það finnst mér enginn árangur, ekki sá árangur sem ég held að við deilum og viljum fá.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði að þetta væri veikt ákvæði, það tekur ekki gildi fyrr en 5. september, þá fór ég yfir það í ræðu minni að jafnvel þó þetta sé það sem þingmaðurinn kallar veikt ákvæði þá dregur það úr metnaði þeirra sem starfa eftir þessum samstarfssamningi vegna þess að þeir vita að þeir verða skikkaðir til þess hvort sem er. Ég held að það væri miklu farsælla að leyfa fólki að segja: Við getum þetta sjálf. Það er þannig. Við vitum þá að löggjafinn hefur hugsað sér einhvern tíma í framtíðinni að gera þetta en á meðan þetta er ekki komið inn hefur atvinnulífið þennan metnað til að sanna að hv. þingmaður hafi rangt fyrir sér. Ég held að það sé miklu farsælli leið.

Óskin um að þetta taki aldrei gildi, já, já, fínt. Það er ósk hv. þingmanns. Ég óska þess að við tökum þetta út, sameinumst um að ná þessum tölum upp og bæta þetta umhverfi sannarlega, okkur öllum til hagsbóta. Á endanum á þetta að snúast um að fólk á að sjá að þetta virkar miklu betur svona. Þá erum við búin eins og ég segi að ná jafnréttinu þó það séu bara 25% karlar í einhverri stjórn.